133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:19]
Hlusta

Flm. (Ólafur Níels Eiríksson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um flutning á starfsemi Fiskistofu.

Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hefja nú þegar undirbúning að flutningi Fiskistofu út á landsbyggðina með aðalstöðvar á Akureyri og starfsstöðvar í Hafnarfirði, í Grindavík, í Ólafsvík, á Ísafirði, á Þórshöfn, í Fjarðabyggð, á Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Leitast verði við að starfseminni verði dreift sem jafnast á starfsstöðvarnar þar sem 8–15 manns starfi í hverri stöð. Flutningi stofnunarinnar verði lokið innan tveggja ára.

Grunnur allrar starfsemi Fiskistofu á rætur sínar að rekja út á landsbyggðina. Enga stofnun er auðveldara að flytja og að líkindum yrði hún mun ódýrari í rekstri með dreifðri starfsemi sem næst þeim aðilum sem stofnunin á að fylgjast með. Með þeim samskiptaleiðum sem til eru í dag á þetta að vera auðvelt. Ekki er verið að rétta landsbyggðinni neitt heldur færa starfsemi á þá staði þar sem hún á heima, þ.e. nær upprunanum. Það var stórslys þegar Fiskistofa var sett á laggirnar að hún skyldi ekki hafa aðalstöðvar úti á landi og enginn sá fyrir sér hvað þessi stofnun átti eftir að blása út.

Hjá Fiskistofu starfa nú 96 starfsmenn og þar af virðast 10 vera „staðbundnir“, sem á víst að þýða að þeir séu við starfsstöðvar úti í á landi. Þess vegna eru þeir staðbundnir. Ef þeir eru á höfuðborgarsvæðinu virðast þeir ekki vera staðbundnir.

Þróun ríkisstarfa hefur jafnframt verið sú að draga úr starfsemi úti á landi. Lítil byggðarlög hafa þannig tapað heilsársstörfum sem hafa verið þeim mikilvæg stoð. Með flutningi starfa sem tilheyra Fiskistofu nær upprunanum og á þá staði þar sem störfin eru unnin er jafnframt stigið mikilvægt skref í þá átt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Hjá Fiskistofu starfa 96 starfsmenn og þar af 13 í tölvuvinnslu. Tölvuvinnslu er hægt að vinna hvar sem er. Svo virðist sem menn af Stór-Reykjavíkursvæðinu gangi fyrir þegar verið er að ráða starfsmenn til Fiskistofu. Sem dæmi var auglýst eftir eftirlitsmanni fyrir Vestfirði. Þar sótti ágætismaður um starfið með búsetu á Ísafirði sem uppfyllti öll skilyrði. En maður af Stór-Reykjavíkursvæðinu var ráðinn í starfið. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir þessu.

Ég sé engin rök fyrir því að vera með Fiskistofu á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég er búinn að tala við nokkra alþingismenn og ráðamenn um þetta og þau rök sem ég heyri eru engan veginn nógu góð fyrir því að hafa Fiskistofu hér.

Ég heyrði að Fiskistofa þyrfti að vera nálægt sjávarútvegsráðuneytinu. Á þetta blæs ég, með allri þeirri tækni sem er til í dag í fjarskiptabúnaði og annarri tækni. Það má ekki gleyma því að Fiskistofa er þjónustufyrirtæki fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Það segir sig sjálft að starfsemin þarf að vera nær sjávarútvegsfyrirtækjunum.

Að mínu mati er langvitlegast að hafa aðalstöðvar Fiskistofu á Akureyri. Akureyri er miðsvæðis og flugsamgöngur þangað eru mjög góðar. Þar eru einnig stór sjávarútvegsfyrirtæki sem eru með mikla starfsemi á Eyjafjarðarsvæðinu. Má þar nefna Samherja, Útgerðarfélag Akureyringa og Þormóð ramma. Á Stór-Reykjavíkursvæðinu minnka alltaf umsvif í sjávarútvegi. Sem dæmi eru minnkuð umsvif hjá HB Granda sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu. Er verið að flytja hluta af starfseminni á Akranes og Vopnafjörð. Fiskverksmiðja þeirra sem er kölluð Faxamjöl er að hætta störfum og þeir eru að byggja upp verksmiðju á Vopnafirði. Þetta eru verkefni sem liggja fyrir. Allir þingflokkar hafa haft það á stefnuskránni að flytja störf á landsbyggðina. Ef eitthvað hefur verið flutt á landsbyggðina hafa það verið sýnishorn og aðallega láglaunastörf.

Í lögum um Fiskistofu segir: ,,Fiskistofa skal starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Fiskistofa heyrir undir sjávarútvegsráðherra.“

Ég hef trú á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem er mikill landsbyggðarmaður taki vel í þessar tillögur. Einnig segir í 1. gr.: ,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Í 2. grein segir: „Fiskistofa skal annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Þá skal Fiskistofa hafa með hendi eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða.“

Hæstv. ráðherra og hv. þingmenn hljóta að sjá það að Fiskistofa á mikið frekar heima á landsbyggðinni og að starfsemi hennar yrði dreifð.