133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég get bent hv. þingmanni á að það er til annars konar kerfi við að stýra fiskveiðum þar sem minna eftirlit þarf þannig að kraftar fólksins sem vinnur á Fiskistofu mundu nýtast til annarra verka en að vera í eftirlitsstörfum með harðduglegu fólki eins og hv. þingmaður nefndi og benti á.

Auðvitað er það öfugsnúið að við séum með miklu meira eftirlit með harðduglegum íslenskum sjómönnum en þeim sem eru að smygla inn eiturlyfjum til landsins. Það sér hver maður. Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að það eigi að fara að skoða hvernig Færeyingar stýra fiskveiðum sínum. Þar þarf ekki allt þetta eftirlit. Þar er ekkert brottkast, það er enginn hvati til þess. Kerfi sem þarf svo gríðarlegt eftirlit og gríðarlega hörð viðurlög eins og dæmin sýna, að sjómaður vestan af fjörðum var dæmdur í milljón króna sekt fyrir að henda nokkrum fiskum í sjóinn sem hann hafði ekki kvóta fyrir.

Kerfið er óréttlátt, skilar ekki neinu og ég er á því að ungt fólk, sama í hvaða flokki það stendur, ætti að skoða þetta með gagnrýnum hætti hvort ekki ætti að fara í gegnum fiskveiðikerfið og eftirlit með því, einfalda það og gera það réttlátara þannig að við sitjum ekki uppi með stofnun sem þarf á að halda gríðarlega miklum fjármunum, á 9. hundrað milljón króna til þess að fylgjast með harðduglegu fólki og dugir ekki til. Fram hefur komið m.a. hjá Landssambandi íslenskra útgerðarmanna að þeir vilja fá enn þá meiri pening til þess að fylgjast með sjómönnum. Það segir auðvitað sína sögu um fiskveiðistjórnarkerfið, óréttlætið og gagnsleysið, að miklu hærri upphæðir en fara í að fylgjast með fíkniefnainnflutningi duga ekki til að fylgjast með sjómönnum.