133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

flutningur á starfsemi Fiskistofu.

635. mál
[20:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði að segja örfá orð um þessa ágætu þingsályktunartillögu frá hv. þm. Ólafi Níelsi Eiríkssyni. Ég er í meginatriðum sammála henni og hvet til þess að sú nefnd sem fær tillöguna til umfjöllunar taki hana fyrir og skoði hvort ekki sé unnt að afgreiða málið aftur frá nefndinni fyrir þinglok þannig að hægt sé að taka afstöðu til þess áður en þing kemur saman. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi sýni að því er full alvara með því að vilja að landið sé byggt. Staðan í byggðamálum hefur verið erfið á undanförnum árum. Menn hafa þó verið vongóðir á sumum svæðum landsins. Menn hafa verið vongóðir á Austurlandi vegna stóriðju og uppbyggingar sem af henni leiðir á því svæði. Menn hafa verið sæmilega vongóðir á Akureyri og síðan þeim svæðum sem eru nálægt höfuðborgarsvæðinu. En nú hefur þetta því miður að miklu leyti snúist við. Síðustu tölur eru þær að fólki fækkaði, eða brottflutningur er meiri en aðflutningur, jafnvel á Akureyri og vestur á Ísafirði er að renna upp fyrir mönnum að ástandið í íbúaþróun og stöðu atvinnulífsins er alvarlegra en menn höfðu áttað sig á til skamms tíma.

Það er skynsamlegt og eðlilegt af hálfu Alþingis að bregðast við og sýna ákveðni í því að vilja efla atvinnu um land allt. Þessi tillaga felur í sér pólitíska stefnumörkun sem miðar í rétta átt. Ég vil þó taka fram að ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að ætla sér að flytja heila stofnun í skyndingu. Ég stóð að vísu sjálfur að því á sínum tíma að flytja Byggðastofnun frá Reykjavík til Sauðárkróks. Það var svolítið sérstakt mál vegna eðlis stofnunarinnar en engu að síður var það ansi bratt. Ég er ekki viss um að ég mundi ráðleggja mönnum að fara að með sama hætti heldur ætla sér ákveðinn tíma til slíkra flutninga. Þeir munu óhjákvæmilega taka nokkur ár ef standa á þannig að verki að ekki tapist út úr stofnuninni verkþekking og kunnátta sem fylgir starfsfólkinu.

Ég bendi á að stjórnvöld skoði líka leiðir sem eru þekktar erlendis eins og í Danmörku. Ég kom á síðasta ári í stofnun í Danmörku sem hefur þó nokkurn hluta af starfsemi sinni þannig að hún semur við starfsfólk sem vinnur heiman frá sér í gegnum tölvu og býr víða um Danmörku. Þetta er að einhverju leyti hægt að gera í Fiskistofu og að miklu leyti í ýmsum öðrum stofnunum og störfum sem ríkið hefur upp á að bjóða. Ég tek eftir því að formaður Samfylkingarinnar hefur hreyft þessari hugmynd í vetur þannig að fleiri hafa fengið fréttir af því fyrirkomulagi sem við kynntum okkur í Danmörku, stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.

Ég bendi á þetta og ég vil geta þess að ég er það róttækur í hugsun um þessi mál að ég tel að breyta eigi stjórnarskránni þannig að Stjórnarráðið sé að hluta til á Akureyri. Ég tel að vandinn liggi í miðsækni valdsins. Það að hafa allar stjórnarstofnanir á sama stað dregur allt annað í kringum þær til sín og síðan dregur það fólkið á eftir. Til þess að breyta þeirri þróun þarf að brjóta upp samansöfnun stofnanavaldsins. Ég vil a.m.k. ganga svo langt að setja niður eins og tvö ráðuneyti á Akureyri og sjá hvernig það mundi ganga næstu árin. Ég er sannfærður um að það mundi skila góðum árangri og engin vandkvæði yrðu í samskiptum milli þeirra ráðuneyta og annarra ráðuneyta og stofnana í Reykjavík, og stofnanir þessara tveggja ráðuneyta á Akureyri gætu allt eins verið í nálægum byggðarlögum. Það er engum vandkvæði bundið, samgöngur eru góðar og öruggar og fjarskiptin það fullkomin að þetta á að vera hægt án nokkurra vandkvæða. En það mundi breyta hinni pólitísku þróun. Það er það sem skiptir máli og það er það sem ég sé í þessum hugmyndum.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Það er eðli frjálslyndra sjónarmiða að líta á kerfið sem við er að glíma og leitast við að stjórna með þeim hætti að sem minnstar hömlur séu lagðar á frelsi manna og athafnir og að sem minnst eftirlitskerfi þurfi til að fylgja lögum og reglum eftir. Ég er sammála þingmanninum um afstöðu hans til stjórnar fiskveiða. Það er ákaflega viðamikið kerfi. Það er dýrt kerfi. Margir starfsmenn þurfa að vera á launum til þess að hafa eftirlit með veiðum og vinnslu og sérstaklega veiðunum. Það er mjög einfalt að hugsa upp aðra útfærslu á stjórnuninni sem hefur miklu minna eftirlit í för með sér og veitir að auki miklu áreiðanlegri upplýsingar um atvinnugreinina. Ég held að menn megi ekki gleyma því að horfa á kerfið sjálft í því samhengi.

Virðulegi forseti. Ég vildi stinga þessu inn í umræðuna þannig að menn hefðu það til umhugsunar ásamt því sem fram hefur komið. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þau sjónarmið sem liggja að baki þeirri tillögu sem hv. þm. Ólafur Níels Eiríksson hefur hér borið fram.