133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:12]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hárrétt og ber að þakka fyrir það að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur upp þetta mál og ræðir það á hinu háa Alþingi. Það sem er alvarlegt er sinnuleysið og afskiptaleysið sem ríkisstjórnin hefur í þessum málum, samanber lítil og léleg svör hæstv. forsætisráðherra um þetta mál en menntamálaráðherra er að vísu ekki í landinu.

Um hvað snýst deilan? Hún er í framhaldi af setningu laga á kennara í nóvember 2004 og snýst um túlkun á þeirri grein sem er mikið rædd núna og sem einhverjir túlka sem 0,75% kjarabætur til kennara. Er það nema von, virðulegi forseti, að allt skólastarf í landinu sé sett í uppnám með þessu eins og þarna kemur fram? Hvers vegna geta sveitarfélögin ekki samið? Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur hirt af þeim miklar tekjur, skert tekjur þeirra eins og t.d. með fjármagnstekjuskattinum. 2.200 einstaklingar greiddu á síðasta ári einungis fjármagnstekjuskatt — ekkert af því fór til sveitarfélaganna — og svo kemur hæstv. forsætisráðherra í ræðustól Alþingis og hefur nánast ekkert um málið að segja. Hvers konar vinnubrögð eru þetta frá hæstv. ríkisstjórn?

Það er staðreynd að sveitarfélögin geta þetta ekki. Við þingmenn Norðausturkjördæmis áttum fund með einni sveitarstjórn ekki alls fyrir löngu þar sem sýnt var fram á að 70% af tekjum þeirra fara í skólamál. Menn eru farnir að tala um að skera niður alls konar þjónustu til að ná endum saman.

Málið er fyrst og fremst á borði ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarfélögunum. Það sem hefur gerst, virðulegi forseti, frá því að skólarnir voru færðir yfir til sveitarfélaganna er að það sem ekki mátti nefna meðan skólarnir voru á borði ríkisvaldsins er búið að setja í lög núna um skyldur sveitarfélaganna án þess að sveitarfélögin hafi fengið nokkra tekjustofna með því.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin ætti að hunskast til að (Forseti hringir.) klára þetta mál gagnvart sveitarfélögunum þannig að leysa megi þessa alvarlegu kjaradeilu sem fram undan er.