133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:14]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega alveg merkilegt að verða vitni að því hér aftur og aftur hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn þvær hendur sínar algjörlega af sveitarfélögunum í landinu, þessi ríkisstjórn sem árum saman og hvað eftir annað hefur höggvið í sama knérunn einmitt gagnvart sveitarfélögunum, sett á þau nýjar álögur og skert tekjustofna þeirra með nýjum lagasetningum.

Það vill þannig til, virðulegur forseti, að ég fékk í gærkvöldi bréf frá konu sem var að þakka mér fyrir utandagskrárumræður sem hér voru í gær og nýtti tækifærið til að reifa málefni lítilla skóla á landsbyggðinni. Þessi kona þekkir greinilega vel til því að hún fór yfir landið og rakti hvernig til stendur að loka hverjum skólanum á fætur öðrum víðs vegar á landsbyggðinni hringinn í kringum landið.

Hver skyldi ástæðan vera, virðulegur forseti, nema fjárhagur sveitarfélaganna í landinu, sveitarfélaganna sem ríkisstjórnin hefur svelt og heldur áfram að svelta og kemur niður á börnum landsins. Það er nefnilega hin endanlega niðurstaða, að börnin verða fyrir barðinu á þessari ríkisstjórn. Þau verða ýmist að vera aðskilin frá foreldrum sínum um nætursakir, jafnvel nóttum og dögum saman, eða að þau þurfa að sitja í bíl tímunum saman daglega. Þetta er eitt af því sem þessi ríkisstjórn ber ábyrgð á og þetta er eitt af því sem er að leggja landsbyggðina í rúst.