133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:16]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fálæti hæstv. forsætisráðherra í þessu máli er með algerum ólíkindum. Það er ámælisvert. Staða sveitarfélaganna er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkissjóðs, ríkisvaldsins. Meðan ríkissjóður hefur fitnað í þenslu síðustu ára hafa sveitarfélögin skilað tugmilljarða halla á hverju einasta ári. Staða þeirra er grafalvarleg. Fræðslumálin eru 50–60 og upp í 70% af rekstri einstakra sveitarfélaga sem eru mjög misjafnlega stór og burðug. Staðreyndin er einfaldlega sú að mörg þeirra valda ekki þessu mikilvægasta verkefni sínu. Hér er um að ræða framtíð íslenskra grunnskóla. Hér er um að ræða einhverja mikilvægustu samfélagslegu starfsemi okkar þjóðfélags og staðan er sú að starfi skólanna er teflt í voða og uppnám. Það er í óvissu.

Það er mikil óvissa um það hvort mesta atgervisfólkið í skólunum gengur þaðan út næsta haust, hættir þar störfum og leitar í önnur störf út af djúpstæðri óánægju með kjaramál sín. Sú óánægja speglast að sjálfsögðu best í því að launanefnd sveitarfélaga býður 0,75% kjarabætur en kennararnir fara fram á 7% út af kjaraþróun síðustu ára. Að sjálfsögðu eru ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra, sem hér situr fámáll á bekknum og kemur ekki upp aftur, aldrei stikkfrí frá þessum málum.

Þetta eru einhver mikilvægustu málefnin. Skólastarfið er í uppnámi og það er undarlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki tjá sig efnislega um stöðu málsins og hvort til greina komi að ríkisvaldið komi að viðræðum við sveitarfélögin um að bæta þeim tekjuskiptinguna. Það er vitlaust gefið, það er ranglæti í stöðunni, ríkisvaldið verður að koma að þessu máli og forsætisráðherra að láta af fálæti sínu í garð þessa stóra og mikilvæga máls. Skólastarfið er í uppnámi. Hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra er ekki stikkfrí.