133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að ræða hér um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna um landið sem er að verða býsna alvarleg þótt það sé mismunandi eftir einstökum landsvæðum.

Það er tvennt sem ég vil draga hér fram til að undirstrika þá þróun sem hefur verið í gangi, í fyrsta lagi að meðaltekjur fólks fyrir atvinnu sína hafa farið lækkandi utan höfuðborgarsvæðisins sem hlutfall af tekjum þeirra sem hafa atvinnu sína á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ekki mörg ár síðan tekjur á Vestfjörðum voru þær hæstu á landinu og meðaltekjur fólks þar voru miklu hærri en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Nú er staðan orðin þannig að meðaltekjur á Vestfjörðum eru 18% lægri en meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu. Á Norðurlandi vestra eru þær lægstar á landinu, yfir 20% lægri en meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eru t.d. að meðaltali tekjur heimilis á Norðurlandi vestra nærri 100 þús. kr. lægri á mánuði en á höfuðborgarsvæðinu.

Af þessum tekjum hafa sveitarfélögin útsvör sín og það segir sig sjálft að þegar þau eru lægri hafa sveitarfélögin lægri tekjur en þau hafa sömu skyldur og svipuð útgjöld.

Í öðru lagi hefur orðið sú breyting á tekjuskiptingunni á síðustu átta árum að um 17% af heildarlaunasummu landsmanna eru núna af fjármagni, um 130 milljarðar kr. Af þessum tekjum hafa sveitarfélögin í dag engar tekjur en hefðu 13%, um 15 milljarða kr., ef þetta væru launatekjur. Þarna er um að ræða mikið tekjufall sveitarfélaga, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.