133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvaða skilyrði fyrir aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu Ísland uppfylli og hver ekki, og hvort von sé til þess að við munum uppfylla þau öll einhvern tímann.

Það má segja að þetta sé áhugaverð spurning, fræðilega séð, en efnislega hefur hún ekki mikla þýðingu vegna þess að við uppfyllum ekki meginskilyrði fyrir aðild að Efnahags- og myntbandalaginu, sem er það að vera aðili að Evrópusambandinu. Það er skilyrði númer eitt.

En þau aðildarríki ESB sem gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu þurfa að uppfylla fimm meginskilyrði um árangur í efnahagsmálum. Þau eru í fyrsta lagi að halli á ríkissjóði sé minni en 3% af landsframleiðslu, í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera séu lægri en 60% af landsframleiðslu, í þriðja lagi að verðbólga sé ekki meiri en verðbólga í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst, að viðbættu 1,5%. Í fjórða lagi að langtímavextir séu ekki hærri en í þeim löndum þar sem verðlag er stöðugast, að viðbættum 2%. Og í fimmta lagi að gengi gjaldmiðla haldist innan opinberra sveiflumarka bandalagsins, sem nú eru 15%, í að minnsta kosti tvö ár.

Eins og nú standa sakir uppfyllir Ísland fyrstnefndu tvö skilyrðin.

Spurt er hvort ráðherra hafi von um að Ísland geti uppfyllt hin í náinni framtíð. Ég hef að sjálfsögðu góða von um það en ítreka að uppfylling þeirra hefur enga formlega þýðingu nema fyrir þau ríki sem aðilar eru að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.