133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að spurt sé um þessa hluti. Flestum er ljóst að íslenski gjaldmiðillinn er með þeim hætti að jafnvel eitt af hinum stóru fyrirtækjum hér á markaðnum getur bókstaflega rúllað honum fram og til baka ef þeim aðilum býður svo við að horfa. Það er ekki geðsleg framtíðarsýn að eiga von á því að ef mönnum þóknast af hagsmunum sínum að skoppa krónunni upp eða niður þurfi íslensk stjórnvöld að búa við það.

Það hefur ekki farið fram mikil umræða um það sem seðlabankastjóri sagði fyrir fáum dögum. Hann sagði að krónan væri ekkert á leiðinni út, ekki að minnsta kosti á næstu 10 árum. Það hefði verið tekið eftir því í öðrum löndum ef seðlabankastjóri hefði látið slíkt út úr sér, hefði gefið gjaldmiðlinum sínum 10 ár eða eitthvað svoleiðis. En það var ekki tekið mikið mark á þessum ummælum.

Það er samt ástæða til að taka eftir þeim. Það er nefnilega þannig að menn þurfa að horfast í augu við það að gjaldmiðillinn er ekki heppilegur með þeim hætti sem hann hefur verið í þessu agnarlitla hagkerfi (Forseti hringir.) sem við búum við.