133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:33]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í grein sem skrifuð var í Hagtíðindi 2001, líklega, af þremur merkum hagfræðingum, Má Guðmundssyni, Arnóri Sighvatssyni og Þórarni G. Péturssyni, fara þeir yfir þá möguleika sem Íslendingar eiga í gengismálum. Þá komust þeir að þeirri niðurstöðu að möguleikarnir séu aðeins tveir, annars vegar að taka upp flotkrónu og peningamálastefnu sem gengur út á það að vera með verðbólgumarkmið og hins vegar að taka upp evru og gerast aðilar að myntbandalagi. Þeir töldu að hið fyrra væri tilraunarinnar virði og ætti að reyna það og sjá hvort tækist að tryggja stöðugleika með þeim hætti.

Nú er raunin sú að ekki hefur tekist að tryggja stöðugleika með þeirri stefnu sem tekin var 2001 og því mikilvægt að Íslendingar ákveði a.m.k. að stefna að því að uppfylla þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að vera tækir í myntbandalagið þó að ekki sé annað en það að menn sammælist um að uppfylla a.m.k. skilyrðin og að eiga þá þennan kost þegar og ef menn vilja.