133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær við tökum upp evruna sem gjaldmiðil í landinu. Það segir allt sem segja þarf um mistök ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála að hér hefur hæstv. forsætisráðherra staðfest að af þeim fimm lágmarksskilyrðum sem gerð eru til efnahagsstjórnar til þess að menn geti orðið hluti af evrópska myntsvæðinu þá uppfyllir Ísland aðeins tvö en þrjú ekki. Eins og fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni standa Eystrasaltsríkin jafnvel betur að vígi hvað þetta varðar, hvað stöðugleikann sjálfan varðar.

Það er mikilvægt að fá það fram hjá hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þessi hagstjórn sé með öllu óviðunandi og að þetta sé í raun og veru falleinkunn fyrir það að hafa mistekist að viðhalda stöðugleika. Eða hvort áfram sé ætlunin að keyra hagstjórnina með þeim miklu sveiflum sem við höfum mátt búa við með þeim miklu stórframkvæmdum og þrýstingi í verðbólgu og vöxtum sem leiðir til þess að íslenskur almenningur má í dag búa við það að hér eru stýrivextir fjórum sinnum hærri en í nágrannalöndunum og fjármagnskostnaður allra heimila miklum mun hærri en menn búa við í nágrannalöndunum, sem aftur leiðir til margvíslegra vandamála, eins og við höfum m.a. rætt hér undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins, sem snúa að kjaramálum stórra stétta eins og kennara sem þurfa að búa við þessa miklu verðbólgu og þá miklu vexti sem fylgja þeirri hagstjórn sem hér er rekin og uppfyllir ekki nema tvö af fimm lágmarksskilyrðum fyrir því að við getum tekið upp þann gjaldmiðil sem við blasir að við munum gera.