133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Mörg þeirra mála sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni varðandi samninga og skuldbindingar eru eins og hann sagði sjálfur lögbundin og skylt að gera, samgönguáætlun, samningur við Háskóla Íslands, sauðfjársamningar og ýmislegt fleira. Annað hefur verið gert að undirlagi eða óskum eða kröfum annarra aðila og ekki má gleyma því að stjórnarandstaðan er býsna iðin við að gera kröfur fyrir hönd ákveðinna hópa um útgjöld og framfarir, byggingar og aukin útgjöld til tiltekinna málaflokka, eins og t.d. á sviði málefna aldraðra. Ég nefni þetta í tilefni af orðum hv. þingmanns en þingmaðurinn spyr:

„Hvert er lagalegt og siðferðilegt gildi fjárskuldbindinga ráðherra fyrir hönd ríkisins eftir að umboð þeirra er út runnið?“

Svar mitt er eftirfarandi: Ráðherrar eru æðstu handhafar opinbers valds og bera ábyrgð sem slíkir bæði í lagalegu, siðferðilegu og pólitísku tilliti. Öllum er ljóst að sérstakt laga- og regluverk gildir um athafnir ráðherra. Þannig er það skýrt að þeir geta ekki stofnað til fjárskuldbindinga fyrir ríkissjóð nema til þess séu heimildir í lögum. Í samræmi við reglur íslenskrar stjórnskipunar hafa ákvarðanir ráðherra, sem eftir atvikum hafa í för með sér fjárskuldbindingar, réttarverkun frá þeim tíma sem þær eru teknar. Þær falla ekki niður eða úr gildi við það eitt að ráðherra láti af störfum. Er þar enginn munur á því hvort ráðherra fær lausn á miðju kjörtímabili eða við stjórnarskipti. Ákvarðanir ráðherra sem teknar eru á réttum lagagrundvelli halda því áfram gildi sínu og þeim verður ekki breytt eða þær felldar úr gildi nema að uppfylltum nauðsynlegum lagaskilyrðum. Dæmi um slíkt er það þegar forsendur fjárveitinga breytast vegna ófyrirséðra atvika. Í annan stað getur þurft að gæta að reglum stjórnsýsluréttar um afturköllun og breytingu ákvarðana en slíkar reglur geta takmarkað möguleika á að hætta við þegar teknar ákvarðanir. Með öðrum orðum, ákvarðanir sem ráðherra tekur sem æðsti handhafi framkvæmdarvalds og fela m.a. í sér fjárútlát fyrir ríkissjóð hafa fullt lagagildi jafnvel þó að það komi síðan í hlut nýs ráðherra að framkvæma þær.