133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sú fjaðurpenna- og skóflustungupólitík sem birtist í tíðum undirskriftum undir langtímasamninga og skóflustungum fyrir allt það góða sem aldrei var byggt, hvort sem það var við barna- og unglingageðdeildina, hjúkrunarheimilið sem núna á allt í einu að byggja korteri fyrir kosningar, alla vegina sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja, núna loksins rétt fyrir kosningar, er góð og gild. En spurningin sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr er afskaplega góð um siðferðilegt og lagalegt gildi, kannski sérstaklega með hið siðferðilega gildi slíkra samninga. Auðvitað er það mjög vefengjanlegt, og hver verða líka fyrstu fórnarlömbin þegar búið er að kjósa og mynda ríkisstjórn eins og verið hefur síðustu 12 árin? Það eru að sjálfsögðu öll stóru loforðin. Það eru stóru atvinnubóta- og átaksverkefnin öll sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar kynna rétt fyrir kosningar, svona aðeins til að ýta undir byrinn með flokkunum eða búa hann til. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu er afskaplega lítið að marka þetta.