133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þóttu svör hæstv. forsætisráðherra mjög athyglisverð áðan og ég skrifaði sérstaklega niður eina setningu sem frá honum kom. Hún var á þá leið að ákvarðanir ráðherra hefðu lagagildi. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég hef oft verið hugsi í þinginu yfir því hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram við þingheim og hversu oft þingið afgreiðir alls konar vilja ráðherranna en það að forsætisráðherra skuli í þinginu lýsa því yfir að ákvarðanir ráðherra hafi lagagildi er algerlega nýtt, algerlega ný túlkun og mjög fróðleg, og segir okkur dálítið um það hvernig menn koma fram við þingið.

Mér þykir einnig mjög athyglisvert að þessi sami hæstv. forsætisráðherra sagði árið 2002 eftir einhverjar kosningabombur eða að einhverjir kosningavíxlar höfðu verið undirritaðir, þ.e. í Ríkisútvarpinu er haft eftir þeim hæstv. ráðherra sem þá var fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra segir að ekki sé hægt að skuldbinda ríkissjóð um marga milljarða með þessum hætti meðan ekki hafi verið gengið frá neinu varðandi fjárveitingar.“

Í þessu felst vitaskuld að það er þingið sem afgreiðir fjárveitingar og meðan þingið hefur ekki afgreitt þessar fjárveitingar segir hæstv. fjármálaráðherra, sem þá var fjármálaráðherra og er nú hæstv. forsætisráðherra, að ekki sé hægt að skuldbinda ríkissjóð á þennan hátt og þetta sé einskis virði. Nú kemur sami einstaklingurinn í tveimur ólíkum embættum og segir í dag að ákvarðanir ráðherra á þessu sviði hafi lagagildi, (Gripið fram í.) þ.e. að kosningavíxlarnir hafi lagagildi í dag sem þeir höfðu ekki fyrir nokkrum árum. Þetta er náttúrlega ein samfelld vitleysa.

Virðulegi forseti. Niðurstaða þessa er í reynd sú sem við vitum kannski, þetta eru kosningavíxlar sem hafa ekkert gildi fyrr en Alþingi hefur afgreitt þetta (Forseti hringir.) og þannig ber að nálgast þessa víxla sem verið er að gefa út núna í aðdraganda kosninga.