133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fjárskuldbindingar ráðherra fyrir hönd ríkisins.

584. mál
[12:53]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir eitt atriði sem hv. þingmaður sagði. Orðalagið „fullt lagagildi“ er ekki nákvæmt, „fullt gildi að lögum“ er nákvæmara. Auðvitað byggist framkvæmd sem þessi, samningar eða skuldbindingar sem ráðherrar gera fyrir hönd ríkissjóðs, á því að ráðherrarnir hafi til þess lagaheimildir. Ef slík skilyrði eru uppfyllt hafa slíkar ákvarðanir fullt gildi að lögum, en auðvitað hefur Alþingi síðasta orðið um allar fjárveitingar. Um það á ekki einu sinni að þurfa að ræða í þessum sal. Ýmsir þingmenn hafa vakið máls á því, m.a. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að gerðir eru fyrirvarar í samningum af þessu tagi um fjárveitingar með samþykki Alþingis. Þannig liggja þessi mál og það hélt ég að öllum væri ljóst.