133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðgengi og afþreying í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

614. mál
[12:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra um aðgengi og afþreyingu fyrir ferðamenn í þjóðgarðinum á Þingvöllum:

Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um:

a. byggingu nýs hótels í stað Valhallar,

b. merkingar á íslensku og t.d. ensku á merkum stöðum í sögu Þingvalla,

c. að koma á þeim möguleika að almenningi gefist kostur á að sjá Þingvelli frá nýju sjónarhorni, t.d. með því að rafknúið skip eða skip knúið áfram með öðrum hætti en olíu og hafa góða veitingaaðstöðu sigli á Þingvallavatni yfir sumarmánuðina?

Allir þekkja sögu Þingvalla, en þó þekkja kannski ekki allir sögu þeirra byggingaráforma sem þar hafa verið uppi. Ekki fyrir margt löngu skipaði þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson starfshóp til að fara yfir og gera úttekt á byggingum í Valhöll.

Það var í ágúst 1898 sem fundar- og gistihús í Valhöll var opnað og stóð þá allmiklu norðar en nú er, uppi á völlunum við svokallaðan Kastala. Veturinn 1929 var Valhöll flutt á ísi á núverandi stað suður fyrir þingið undir eystri barm Almannagjár. Í skýrslu og samantekt fyrir hæstv. þáverandi forsætisráðherra sem Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur tóku saman er margt athyglisvert að lesa varðandi núverandi húsakost í Valhöll. Þeir segja að byggingarnar séu frá mismunandi tímabili, þær byggðar úr mismunandi efnum og misvandaðar, stundum hafi verið valin dýr efni en stundum það alódýrasta. Í heild sinni má segja um tæknikerfi hússins líkt og byggingarnar sjálfar að þau séu eins og stagbættar flíkur. Endurbætur eru oft mjög áberandi og skera í augu og eru í engu samræmi við þær gæðakröfur sem gerðar eru til byggingar með því menningarlega hlutverki sem hæfir staðnum og stefnumörkun fyrir svæðið.

Frú forseti. Ég tel fulla ástæðu til að taka til hendi varðandi byggingu nýs hótels við Valhöll. Ég átti þess kost að vera sl. haust við Valhöll, á sunnudegi, hvar þúsundir manna höfðu flykkst á svæðið og nutu veðurblíðunnar, einstakrar náttúrufegurðar og haustlita. Þá brá svo við að Valhöll gat ekki tekið á móti því fólki sem gjarnan vildi leita þar inn og kaupa sér kaffi eða mat. Mér finnst til háborinnar skammar að það skuli vera svo haldið á málefnum Þingvalla (Forseti hringir.) og varla sé hægt að fá að drepa fæti niður í þennan merka þjóðgarð vegna friðunar.