133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðgengi og afþreying í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

614. mál
[13:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mér er mjög umhugað líka um stöðu Þingvalla og að Þingvellir hafi þann raunverulega sess meðal þjóðarinnar sem við viljum.

Eitt vil ég benda á, almenningssamgöngur til Þingvalla hafa verið felldar niður, hafa ekki gengið núna síðustu tvö eða þrjú árin. Þeir sem vilja komast til Þingvalla verða annaðhvort að fara á eigin bíl, taka bílaleigubíl eða kaupa pakkaferð með útsýnisfyrirtæki og verða þá að taka stærri hring og kaupa leiðsögn. Ég veit að þetta hefur t.d. gjörbreytt aðgengi venjulegs fólks, erlendra ferðamanna sem koma hingað á eigin vegum og eru kannski að koma til að njóta Þingvalla, tjalda þar og vera. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki þjóðarskömm að við skulum ekki vera með reglulegar almenningssamgöngur til Þingvalla, (Forseti hringir.) a.m.k. yfir sumartímann? Þær eru ekki heldur að Geysi. Mér finnst að Þingvellir eigi að fá að njóta þess að þangað séu almenningssamgöngur fyrir fólkið, hvort sem það er erlent eða innlent.