133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðgengi og afþreying í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

614. mál
[13:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og áhuga hans á þessu máli sem vissulega varðar okkur öll. Þingvellir eru helgidómur í augum þjóðarinnar og það er mikilvægt að um staðinn sé gengið af sóma og að uppbygging þar sé í sátt við umhverfi og náttúru.

Núverandi bygging Hótels Valhallar er vissulega komin til ára sinna og þar er margt sem betur mætti fara. Þó vil ég taka fram að eftir að ríkið eignaðist húsið fyrir nokkrum árum hefur verið lagt í nokkrar endurbætur og ég vil sérstaklega geta þess að núverandi rekstraraðilar, sem eru með samning um rekstur hússins, hafa lagt verulega mikið á sig til að bæta þar aðstöðu og gera húsið vistlegra, bæði fyrir næturgesti og matargesti, þó að vissulega sé erfitt um vik þegar um svo gamalt hús er að ræða, eins og þingmaðurinn gat um.

Ég ítreka síðan bara ósk mína um að á Alþingi myndist góð samstaða um framtíð staðarins og sérstaklega það atriði með hvaða hætti þingið sjálft, Alþingi, eigi að hafa aðstöðu eða frekari aðkomu að húsakynnum og húsakosti á Þingvöllum.