133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fólksfækkun í byggðum landsins.

562. mál
[13:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Efni fyrirspurnar hv. þingmanns snertir mál sem við höfum rætt aftur og aftur í þingsölum undanfarna daga og vikur. Það er þá óhjákvæmilegt að það verði eitthvað um endurtekningar, bæði af hálfu hv. þingmanna sem taka þátt í umræðum og einnig í svörum.

Hins vegar beinist fyrirspurnin að þessu sinni að einu tilgreindu viðfangsefni og ég mun í svari mínu halda mig alveg við það um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu.

Eitt af þeim verkefnum sem tilgreind eru í byggðaáætlun 2006–2009 nefnist „Athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun“. Verkefninu er þannig lýst í byggðaáætlun, með leyfi forseta:

„Gerð verður athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verða metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.“

Byggðastofnun ber ábyrgð á framkvæmd þessa verkefnis en vinnur það í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, Impru nýsköpunarmiðstöð, sveitarfélög, ráðuneyti og Háskóla Íslands. Samkvæmt byggðaáætlun skal ljúka þessu verkefni fyrir árslok þessa árs. Frumvinna hófst á haustdögum 2006 og reiknað er með að niðurstöður verði kynntar síðla á þessu ári, 2007. Búið er að vinna verkáætlun og gera tillögu um skilgreiningu þeirra svæða sem til athugunar verða. Unnin verður stöðugreining þessara byggðarlaga og aflað upplýsinga um hugmyndir heimamanna um leiðir til að efla þau. Þessa dagana er verið að kynna verkefnið fyrir atvinnuþróunarfélögunum en leitað verður samstarfs við þau um upplýsingaöflun bæði hvað varðar stöðugreiningu og hugmyndir heimamanna á hverjum stað eða hverju svæði um úrbætur.

Einnig verður leitað eftir samstarfi við Hagstofu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi upplýsingar svo og ráðuneyti þar sem það á við. Impra nýsköpunarmiðstöð mun leggja Byggðastofnun lið við verkefnið og fylgjast með framvindu þess. Þá verður haft samstarf við landfræðiskor Háskóla Íslands. Þegar niðurstöður framangreindrar vinnu liggja fyrir mun Byggðastofnun vinna tillögur um eflingu svæðanna og leggja þær fyrir iðnaðarráðuneytið. Hafa ber reyndar í huga að núgildandi byggðaáætlun var samþykkt á Alþingi í júní sl., fyrir rúmu hálfu ári, og ég held að segja megi að þetta verkefni sé alveg í eðlilegu ferli.