133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fólksfækkun í byggðum landsins.

562. mál
[13:15]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur við að ég reiti hár mitt þegar ég sit hér í sæti mínu í þingsal og hlusta á það sem á að fara að gera í málefnum þeirra byggðarlaga sem eru til umræðu því að það er ekki þannig, virðulegi forseti, að það vandamál sem við erum að ræða sé nýtt af nálinni. Það er frekar seint í rassinn gripið að byrja á haustdögum 2006 að greina.

Byggðastofnun hefur mörg mikilvæg verkefni með höndum en mér er spurn hvort reynt hafi verið að greina þau á vegum ráðuneytisins og hvort Byggðastofnun hafi aðstæður til að vinna verk sín svo sem best má vera. Hefur hún fjármagn og mannafla eins og best verður á kosið? Það held ég ekki, virðulegur forseti.

Það er orðið brýnt að grípa til aðgerða og við vitum um margar og sennilega flestar þær ástæður sem að baki liggja þeirri fólksfækkun sem hér er til umræðu. Vera kann að þörf sé á nýrri greiningu þó að ég telji ekki að svo sé. (Forseti hringir.) En það er fullseint í rassinn gripið.