133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

fólksfækkun í byggðum landsins.

562. mál
[13:18]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki að því gert að manni blöskrar oft að heyra svona landsbyggðarumræðu. Kannski er hún í hnotskurn í orðum sem hv. 4. þingmaður Suðurkjördæmis sagði áðan þegar hann sagði að ekkert hafi verið gert sem máli skipti í samgöngum og fjarskiptum síðustu árin.

Er þetta sanngjarnt? Í fjarskiptum er búið að stofna sérstakan sjóð (Gripið fram í.) og verið er að ganga um landið til uppbyggingar. Ég lýsti því í ræðu um samgönguáætlun þegar ég byrjaði á þingi, að einn kílómetri væri malbikaður í Norður-Múlasýslu. Allt vegakerfi landsins hefur verið byggt upp meira og minna á síðustu árum. Eru jarðgöng, t.d. Héðinsfjarðargöng, ekkert sem máli skiptir? Eða eru Fáskrúðsfjarðargöng ekkert sem máli skiptir? Er Bakkafjara ekkert sem máli skiptir? (Forseti hringir.) Það má passa sig á að tala ekki niður landsbyggðina með þessum öfgum. (Gripið fram í.)