133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Svona fréttir berast nú reglulega. Í Bæjarins besta í gær stóð, með leyfi forseta:

„Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækka frá og með 1. mars. Orkubú Vestfjarða hf. hefur ákveðið að hækka gjaldskrár sínar frá og með 1. mars nk. Gjaldskrá fyrir raforkudreifingu hækkar um 8%, gjaldskrá fyrir hitaveitur hækkar um 6% og verðskrá fyrir raforku hækkar einnig um 6%.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þessar hækkanir á gjaldskrám eru nauðsynlegar til þess að mæta hækkun á orkuverði frá Landsvirkjun, hækkunum á flutningsgjaldskrá Landsnets sem og hækkun annarra kostnaðarliða í rekstri fyrirtækisins. Þá má einnig geta þess að Orkustofnun hefur aðvarað Orkubúið um að komið geti til inngrips þeirra í gjaldskrársetningu …“ — þ.e. hækki gjöldin enn meir, komi þeir til með að fá athugasemd frá iðnaðarráðherra, yfirmanni Orkustofnunar, því að það er arðsemiskrafan sem hefur verið leidd inn í orkugeirann sem verið er að hækka og hæstv. ráðherra var að vísa til. (Forseti hringir.) Í lokin, frú forseti, ætli hv. fyrirspyrjandi iðrist ekki að hafa stutt raforkulögin núna?