133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að í sjálfu sér hafi kannski ekki verið neinar blekkingar á ferð þegar raforkulögin voru sett. Þau hafa reynst nákvæmlega eins og spáð var fyrir á Alþingi og við sem greiddum atkvæði gegn þeim vöruðum við því að nákvæmlega þetta mundi gerast, að raforkuverðið mundi hækka, sérstaklega á landsbyggðinni og á dreifbýlisgjaldskrársvæðunum.

Markaðsvæðing raforkukerfisins er að reynast mjög dýr og mikil mistök og það er undarleg staða sem komin er upp að opinber eftirlitsstofnun er með svipuna á lofti yfir raforkufyrirtækjunum til að pína þau til að hækka. Þannig er því nú komið, því að það verður auðvitað að tutla arðinn út úr kerfinu eins og lögin gera ráð fyrir. Það er líka undarlegt að heyra hæstv. ráðherra tala um að það sé ekki kerfislægur vandi þegar rafmagnið hækkar um 25–40% til húshitunar eða hjá bændum.

Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji beita sér fyrir þeirri úttekt sem tillaga stjórnarandstöðunnar sem liggur fyrir þinginu kveður á um. Því miður næst sjálfsagt ekki fram afgreiðsla á henni. Þar er farið fram á heildarúttekt á þróun þessara mála frá því að raforkulögin (Forseti hringir.) voru sett og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hann til samkomulags tilbúinn til að beita sér fyrir því að slík úttekt verði gerð?