133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:42]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Farið hefur fram lausleg fyrsta könnun á þeim 25% notenda sem hafa fengið hækkun á umliðnum þremur árum. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé endanleg niðurstaða en hún leiðir ekki í ljós neina eina einhlíta skýringu. Það virðast vera atviksbundnar ástæður í atviki hvers greiðanda um sig. Víða skiptir það máli að niðurgreiðsla er bundin við íbúðarhúsnæði en ekki húsnæði þar sem rekstur á sér stað. Ég fullyrði að það eru aðeins örfá dæmi um þær hækkanir sem hér voru nefndar. Ég hélt mig við hækkanir sem eru um og innan við 15% í því mati sem ég lét í ljós.

Það er hins vegar engin ástæða til að gera lítið úr þeim vanda sem þessar hækkanir geta valdið og það er mikil ástæða til þess að halda áfram því starfi sem t.d. Orkusetur veitir upplýsingar um, orkusparnað, orkusparnaðaraðgerðir, viðgerðir á húsnæði og annað þess háttar. Það er einmitt sú úttekt sem þessi starfshópur sem ég hef áður skýrt frá og skýrði frá áðan og ég gerði ráð fyrir að mundi fara í verðmyndun, einstaka kostnaðarliði og mat á þeim og þróun þeirra, en ég vara eindregið við því að menn geri lítið úr nauðsyn arðsemiskröfu í þessum rekstri því að þar eru menn þá yfirleitt að bíta út haga framtíðarinnar og það er mjög hættulegt og óheppilegt að gera.