133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[13:52]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta eru að verða dæmalaus áform um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Þær voru kynntar til sögu fyrir nokkrum árum sem rennslisvirkjanir en nú eru þær orðnar að virkjunum með þremur nokkuð stórum lónum í miðri blómlegri byggð. Næsta skref er það að verið er að hanna framkvæmdir á jörðum sem alls ekki eru í valdi þess sem framkvæmir eða framkvæma ætlar og komin er í ljós veruleg andstaða við að nýtt sé eignarnámsheimild á jörðunum sem ég vona að hæstv. fjármálaráðherra taki undir á eftir.

Það er líka nýtt við það að nú ætlar Landsvirkjun að fara að bjóða út framkvæmdirnar með einhverjum hætti en hefur ekki einu sinni rannsóknarleyfi. Landsvirkjun hefur í óleyfi rannsakað framkvæmdir á svæðinu, hefur í óleyfi gefið út alls konar skýrslur, skrár og fyrirætlanir. Hvernig stendur á því? Ég vona (Forseti hringir.) að ráðherrann svari því þegar iðnaðarráðherra er farinn, hvers vegna Landsvirkjun leyfir sér slíkt án rannsóknarleyfis í ánni.