133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[13:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Rafmagnið sem ætlað er að framleiða í virkjunum í neðri hluta Þjórsár á að ganga til uppbygginga álvera, stækkun álversins í Straumsvík eða álvers í Helguvík. Nú er allt í uppnámi með það. Þetta verður eitt af kosningamálunum í vor hvort halda eigi áfram í álæðinu sem hefur verið undanfarin ár eða hvort stoppa eigi við. Meira að segja Morgunblaðið er farið að lita fálkann grænan til þess að lýsa yfir andstöðu sinni við virkjanaáformin, við áláformin.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki rétt að stoppa við, stoppa Landsvirkjun af a.m.k. fram yfir kosningar og sjá hvað gerist, hvort þjóðin hafni ekki frekari stækkun álversins í Straumsvík eða nýju álveri í Helguvík? Þá eru líka forsendur brostnar fyrir því að fara í virkjanirnar í neðri Þjórsá. Stoppum við. Ég skora á hæstv. ráðherra að fylgja eftir merki græna fálkans í Morgunblaðinu og stoppa við.