133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það fer að verða ekki seinna vænna fyrir hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson að reyna að hafa sig upp úr niðdimmum kjallara útúrsnúninganna í stjórnmálarökræðunni ef hann ætlar að ná því yfirleitt á sínum þingmannsferli því að skammt lifir þessa kjörtímabils. (Gripið fram í.)

Ég mótmæli því að ekki sé andstaða við samninga við Landsvirkjun á því svæði sem í hlut á, það eru bara einfaldlega ekki réttar upplýsingar hjá hæstv. ráðherra og engin málsvörn í því fólgin. Það er erfitt að túlka hæstv. ráðherra öðruvísi en þannig að framganga Landsvirkjunar sé með stuðningi hans, hann sé að skrifa upp á það að Landsvirkjun þjösnist áfram og bjóði út framkvæmdir á landi sem eru í einkaeigu, hvers eigendur eru andvígir framkvæmdunum og hafa ekki samið um afnot af landi sínu. (GÓJ: En af hverju …?) Það er stórkostlega ámælisvert að opinbert fyrirtæki skuli geta hegðað sér þannig, frú forseti, og fráleitt í raun og veru. Það að bjóða út framkvæmdirnar er allt annað en að útfæra virkjunarkostina og velja þá þannig að menn geti áttað sig á því hvernig mannvirkin verða. Það er stigið eitt skref og mjög stór skref í viðbót (GÓJ: En af hverju …?) þegar framkvæmdirnar (Forseti hringir.) sjálfar eru boðnar út.

Þess vegna er engin hæfa að Landsvirkjun haldi nú þessum undirbúningi áfram í ljósi allrar óvissu í málinu, í ljósi andstöðunnar heima fyrir og ef treysta má því að ekki eigi að grípa til eignarnámsheimilda. Ef fjármálaráðherra fyrir hönd fyrirtækisins er búinn að ákveða að pólitískt sé ekki staða til þess og ekki réttlætanlegt og verjanlegt að grípa til eignarnámsheimilda, hverjar heimamenn hafa óttast — það get ég borið vitni um, síðast á fundi á Skeiðum fyrir nokkrum dögum, að heimamenn óttuðust þar að Landsvirkjun væði svona áfram í trausti þess að hún fengi eignarnámið ef á þyrfti að halda — á ráðherra, ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að stoppa. Ef ekki stendur til að grípa til eignarnáms verða að koma samningar (Forseti hringir.) áður en lengra er haldið.