133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár.

632. mál
[14:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Já, það er dálítið sérstakt, frú forseti, að hv. þingmaður notar annað orðalag núna í ræðu sinni en er í fyrirspurninni. Í fyrirspurninni er talað um „í ljósi andstöðu landeigenda“ en miðað við þær upplýsingar sem ég hef hafa þeir landeigendur sem þarna koma að máli ekki haft uppi neina andstöðu við það að ganga til samninga við Landsvirkjun. Þar sem þannig liggur í málinu hefur ekki komið upp sá hugsanlegi möguleiki að farið yrði í eitthvert eignarnám. Það hefur ekkert verið skoðað einu sinni hvort það væri rétt eða réttlætanlegt. Það eina — (Gripið fram í.) ef hv. þingmaður mundi gefa mér tækifæri til að svara — sem ég hef sagt um þetta mál, og reyndar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vitnaði í, var í Fréttablaðinu þar sem ég sagði að það eina sem gerði það mögulegt í stöðunni að fara í eignarnám væri að um það væri getið í lögum, en að öðru leyti vissi ég ekki til að það væri neitt inni í umræðunni hvað þetta varðar. Þannig er staðan, það er ekki inni í umræðunni. Viðræður eiga sér stað við landeigendur um þetta mál. Það eru ákvæði um það í samningunum sem fóru fram um sölu virkjanaleyfanna hvernig að þessu á að standa þegar virkjanaleyfið verður nýtt, (Gripið fram í.) hvernig eigi — ef hv. þingmaður leyfir mér að klára að svara — að ganga í það að meta bætur vegna jarðrasks og annars sem tengist mannvirkjunum. (Gripið fram í.)

Forsenda fyrirspurnarinnar er eins og ég sagði áðan einfaldlega röng því að andstaða landeigendanna við það að semja við Landsvirkjun, sem byggt er á, hefur ekki komið fram. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni um það að hönnun mannvirkjanna leiði ekki til þess að það verði auðveldara að meta jarðrask og hvaða bætur eigi að koma fyrir jarðrask en ef það hefðu ekki farið fram.