133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bótaskyldir atvinnusjúkdómar.

611. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, atvinnusjúkdómar eru skaðabótaskyldir, þ.e. vinnuveitandi getur orðið skaðabótaskyldur ef líkamstjón sem stafar af atvinnusjúkdómi verður talið rakið til vinnuveitandans, tækja sem hann ber ábyrgð á eða efna sem þar eru notuð.

Hins vegar er öllu alvarlegra að þeir sem verða fyrir atvinnusjúkdómum njóta ekki réttar úr almannatryggingum. Eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gat um er það mjög frábrugðið því sem gerist a.m.k. annars staðar á Norðurlöndunum og víða í kringum okkur. Ég vil leyfa mér að skilja svör hæstv. heilbrigðisráðherra svo að hún hafi vilja til þess að setja reglugerð um atvinnusjúkdóma. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni þarf að vera til íslensk skrá og þetta er a.m.k. að hluta til til í Vinnueftirlitinu þar sem slík sjúkdómaskráning hefur verið við lýði um nokkurt skeið.

Ég vænti þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi um það forgöngu að ráðuneytið og Vinnueftirlitið vinni að slíkri skrá og að þessi reglugerð um atvinnusjúkdóma verði sett hið fyrsta.