133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Önnur Marco Polo áætlun Evrópusambandsins gekk í gildi árið 2006, þann 14. desember. Ástæður Evrópusambandsins fyrir Marco Polo áætluninni nr. 2 eru kostnaður vegna slysa á vegum sem er áætlaður um 1% af vergri landsframleiðslu, umhverfismál eða mengun sem hlýst af flutningi á vegunum, hætta á vegunum og aukinn umferðarþungi og umferðarteppur en spáð er mjög mikilli aukningu á umferð á næstu árum.

Á Íslandi eru aðstæður alveg nákvæmlega eins og þarna er verið að lýsa, þ.e. vegir á Íslandi slitna mjög vegna umferðarþunga flutningabifreiða. Þess má geta í leiðinni að þungaskattur dekkar engan veginn þann kostnað sem hlýst af flutningunum. Það er mjög mikil mengun af þeirri umferð og hún er stórhættuleg fyrir almenna umferð. Það ber ekki að skilja orð mín svo að ég geri mér ekki grein fyrir því sem verið er að gera okkur landsmönnum gott með flutningunum til okkar en það verður að skoða aðrar leiðir.

Undanfarið hefur verið mikill þrýstingur frá sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækja úti á landsbyggðinni sem hafa viljað fá flutningana á sjó vegna þess að flutningur með bílum og kostnaður við það er bókstaflega að sliga atvinnulíf úti á landsbyggðinni, sérstaklega á þeim landsvæðum þar sem vegir eru mjög slæmir, eins og t.d. á Vestfjörðum. Við þekkjum mörg dæmi um það að það þarf að umskipa, það þarf að skipta farmi niður á minni bíla vegna þess að vegirnir þola ekki stóru bílana sem eru mikið hlaðnir. Nýlega gengu vestfirskir sveitarstjórnarmenn einmitt á fund okkar þingmanna svæðisins þar sem verið var að leggja áherslu á þessi atriði.

Marco Polo áætlunin gengur sem sagt út á það að koma flutningum af vegunum á sjó og vötn af þeim ástæðum sem ég taldi upp áðan. Á Íslandi hefur alltaf verið eiginlega gefið í skyn að ekki mætti styrkja sjóflutninga. Það er hins vegar rangt. Það má styrkja sjóflutninga og áætlunin gengur beinlínis út á það, eins og ég sagði áðan, að styrkja og styðja flutningana. Ekki einungis það, heldur líka að styðja við þróun tæknibúnaðar sem minnkar mengun. Hér á Íslandi höfum við einmitt eitt slíkt fyrirtæki, Marorku, sem framleiðir tækjabúnað sem minnkar orkunotkun og þar með mengun frá skipum.

Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Hefur samgönguráðuneytið gert úttekt á því hvaða möguleikar felast í Marco Polo áætlun Evrópusambandsins fyrir íslenskt samgöngukerfi?

2. Hefur ráðuneytið kynnt skipafélögum sérstaklega möguleika sem felast í Marco Polo áætluninni?

3. Eru áðurnefndar kynningar fyrirhugaðar ef þær hafa ekki farið fram? (Forseti hringir.)

4. Hvaða þýðingu telur ráðherra að þessi áætlun geti haft fyrir Íslendinga?