133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:40]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að halda því til haga og rifja það upp, eins og hæstv. samgönguráðherra kom inn á áðan, að það var að óskum viðskiptavina skipafélaganna að miklum hluta til sem landflutningarnir voru teknir upp. Þetta náði til fólksins í landinu sem vænti þess að fá matvöruna ekki á síðasta söludegi í verslanir í hinni dreifðu byggð, það er hluti af málinu.

Í annan stað hef ég oft getið um það áður að á meðan Jaxlinn var í strandflutningum, að þrátt fyrir að það væri 30–40% ódýrara að flytja með Jaxlinum fluttu aðilar sem voru í sjávarútvegi eða annarri framleiðslu í hinni dreifðu byggð ekki með skipinu.

Auðvitað gætir þeirrar hugsunar hjá öllum að við viljum strandflutningana sem mesta, það liggur alveg ljóst fyrir. Við breytum bara ekki tíðarandanum, alls ekki, gagnvart matvörunni og ef þeir sem framleiða vöruna hafa heldur ekki hug á því að flytja um ódýrari veg eins og í boði er, þá erum við í vondum málum. (Forseti hringir.)

Hitt er annað mál að það er nauðsynlegt og sjálfsagt að skoða það hvernig við getum komið flutningunum aftur á sjó.