133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru nokkurn veginn á þá lund sem ég hafði búist við. Mér sýnist nefnilega alveg augljóst að enginn raunverulegur vilji sé hjá stjórnvöldum til þess að styðja við sjóflutninga, því miður.

Ég ætla að benda hæstv. ráðherra á það að í Noregi er Hurtigruten, sem er með strandsiglingar til Norður-Noregs, styrkt. Það er því ekki bannað að styðja við flutninga á sjó, það þarf bara viljann til þess. Fyrir utan það að ef vilji væri til væri líka hægt að skipuleggja hlutina þannig að um millilandasiglingar væri að ræða. Að vísu þyrfti hugsanlega að koma upp vöruhótelum á fleiri stöðum á Íslandi en nú er, en með því móti væri væntanlega hægt að flytja vörur beint frá útlöndum.

Eins og ég sagði áðan í framsöguræðu minni er meginmarkmið Evrópusambandsins m.a. það að minnka mengun á sínu svæði og í heiminum. Það er slagur sem við Íslendingar þurfum líka að taka þátt í. Það er því eitt af því sem er líka ábyrgðarhluti hjá Íslendingum ef þeir ætla að láta hjá líða að nýta sér öll þau tækifæri sem möguleg eru til þeirra hluta. Gamalt máltæki segir: Þar sem er vilji, þar er vegur. Nú getum við sagt: Þar sem er vilji, þar er sjóvegur. Það sem ég óttast í þessu tilfelli er að það sé ekki vilji.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að setja menn í það á sínum vegum að skoða hvort ekki er hægt að nýta sér þessa áætlun. Ég vil líka ítreka það sem ég benti á áðan, að það er ekki einungis um að ræða siglingar heldur er líka (Forseti hringir.) um að ræða stuðning við tækniþróun.