133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég lagði áherslu á var að ekki væri verið að opna fyrir innflutning eða gefa tollkvóta fyrir innflutning til þess vísvitandi að skerða samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu eða íslensks matvælaiðnaðar. Fullt af fólki vinnur við það hér á landi og matvælaiðnaður er mjög mikilvægur í landbúnaði. Þegar veitt er heimild fyrir svona innflutningi þurfum við að gæta þess að hún sé ekki notuð á ósanngjarnan eða óeðlilegan hátt til að skerða samkeppnisstöðu íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Ég hygg að við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson séum sammála um að gæðin og öryggi framleiðslunnar gagnvart neytendum séu númer eitt.

Ég verð að segja að þeir sem komu á fund landbúnaðarnefndar frá hinum ýmsu aðilum, t.d. Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna og talsmanni neytenda, töluðu allir um verð, eingöngu um verð. Þegar ég spurði þessa ágætu menn sem eru umboðsmenn svo mikilla hagsmuna hvort þeir spyrðu sig aldrei um gæði, hvort þeir teldu sig aldrei þurfa að hugsa um gæðin, viðurkenndu þeir það, jú, en ekki fyrr en aðspurðir. Það er þessi nálgun verslunaraðilanna sem mér finnst svo ósanngjörn og röng gagnvart grundvallarhagsmunum neytenda sem hljóta líka að vera hollusta og gæði vörunnar. Það var ekki nefnt fyrr en þeir voru spurðir. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af, frú forseti.