133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:15]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan velkjast menn ekki í vafa um þau upprunalegu vottorð sem fylgja vörunni. Það fylgir því þá líka að það er náttúrlega gæðamat á vörunni sem fer fram áður en hún kemur til landsins. Hins vegar má kannski benda á, eins og hv. þingmaður kom inn á og kom líka fram í landbúnaðarnefnd, að fleiri afurðir eru fluttar til landsins. Við erum jafnvel með kengúrukjöt frá Ástralíu, dádýrakjöt og fleira mætti telja. Ég efast nokkuð um hreinleika þeirrar vöru þó að við séum fullvissuð um að eftirlit sé með henni. Við ræddum líka um þann kostnað sem hefur orðið vegna smitsjúkdóma sem jafnvel verða til vegna innflutnings á fóðri en svo lendir það á svínabændum, svo dæmi sé tekið, ef upp kemur einhver sjúkdómur. Þetta er því mjög vandmeðfarið mál.

Fram kom í nefndinni að menn deildu mjög um það hvort vera ætti uppboðsmáti á þessum innfluttu landbúnaðarvörum. Hvort ekki ætti frekar að úthluta þeim með því að dregið væri upp úr hatti. Meiri hlutinn var á því að það væri ekki skynsamleg aðferð. Hins vegar mundi það þýða að varan yrði enn ódýrari til neytenda.

Það eru svo margar hliðar á þessu. Málið er mjög viðkvæmt en ég er sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni í því að hreinleiki vörunnar er númer eitt, tvö og þrjú. Að varan sé þess eðlis að ekki sé hætta á smitsjúkdómum. Ég er þó þeirrar skoðunar að það eigi að vernda íslenskan landbúnað enn um sinn en mér finnst ekki óeðlilegt að heldur fari að slakna á þeirri kló neytendum til hagsbóta.