133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:19]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu, um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta, er flutt vegna þess að menn vilja flytja inn erlendar vörur á íslenskan markað.

Væntanlega er það hugsað til þess að neytendur fái ódýra og góða vöru og það eykur auðvitað samkeppnina innan lands. Mér hefur þess vegna fundist svolítið undarlegt að umræðan, sem hefur staðið hér yfir um málið, skuli snúast um heilbrigði innfluttra vara, einfaldlega vegna þess að á því er tekið annars staðar í lögum en hvað varðar frumvarpið sem hér er. Ég geri ekkert lítið úr þeirri umræðu og set ekkert út á það þó menn ræði það hér. En sannleikurinn er sá að málið snýst um að lækka vöruverð á Íslandi. Eða er það ekki meiningin? Til hvers væru Íslendingar að opna tollkvóta fyrir innflutning á erlendum búvörum ef ekki stæði til að það kæmi neytendum til góða? Þá koma menn að þessu: Með hvaða hætti gerist það?

Á undanförnum árum hafa menn boðið tollkvótann upp. Hvernig verður þá verðið til á vörunni sem um er að ræða? Jú, með því að þeir sem flytja inn til þess að selja innan lands keppa um gæðin með tilliti til þess hvaða verðlag er á sambærilegum vörum innan lands. Þannig verður verðið til. Það er alveg sama hvort tollkvótinn er dreginn úr hatti eða hvort hann er boðinn upp og seldur. Sá sem hattinn hlýtur, ef dregið er úr hattinum, hefur alveg sömu möguleika á því að selja vöruna með tilliti til þeirrar vöru sem er sambærileg á markaðnum og hirða allan hagnaðinn. Þess vegna er það engin trygging fyrir neytendur að þeir fái vöru á eitthvað óskaplega lágu verði þó menn opni slíka tollkvóta vegna þess að það er verðlagið innan lands sem ræður því hvert markaðsverð vörunnar er eða verður á innlendum markaði. Það er því spurning með hvaða hætti hægt er að koma arðinum til neytenda.

Ég tók eftir því að þeir sem mættu á fund landbúnaðarnefndar voru flestir með eina athugasemd. Þeir voru á móti því að tollkvótarnir væru boðnir upp af þessum ástæðum. Þeir bentu á að það mætti draga úr hattinum o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að það sé lítið betra að draga úr hattinum en að bjóða tollkvótana upp. Það hefur svipuð áhrif. Að vísu getur sá sem hefur fengið þennan vinning úr hattinum notað fenginn til þess að lækka vöruverðið hjá sér og selja á mjög lágu verði. Hann getur líka valið sér verð í samræmi við vöruverð á markaðnum og tekið góðan hagnað. Ekki er hægt að komast fram hjá þessum hlutum nema með því að leyfa innflutning á vörunum og styrkja landbúnaðinn með öðrum hætti til þess að taka þátt í samkeppninni. Það er miklu eðlilegra fyrirkomulag en að nota fornaldarlegar aðferðir eins og þær að búa til eitthvert kvótakerfi utan um innflutninginn.

Það er eins og menn þurfi stundum að venjast hlutunum í smáskömmtum. Þetta er ein af þessum smáskammtalækningum sem menn telja víst að þurfi að vera undanfari þess að koma á samkeppni á þessum markaði í landinu. Við því er svo sem ekkert að segja. Ég verð þó að segja alveg eins og er að mér finnst að umræðan eigi að snúast um það hvort verið sé að lækka vöruverð eða ekki en ekki um það hvort heilbrigði innfluttrar vöru sé í lagi. Sú umræða á ekki heima undir þessum lið. Þó ég sé ekki að kvarta undan henni tel ég að viðfangsefni okkar sé hitt, hvort þetta muni þjóna tilgangi sínum.

Þetta er liður í því að ríkisstjórnin vill efna það heit sitt við fólkið í landinu að lækka vöruverð og ég trúi því að menn ætli að ná þeim árangri. Spurningin er: Hvernig ná menn honum? Ég er ekki með neinar patentlausnir á því. Það eru þó möguleikar á að breyta, hæstv. landbúnaðarráðherra gæti gengið í það, úthlutunarreglunum sem eru notaðar á tollkvótana. Ef hæstv. landbúnaðarráðherra væri t.d. að hugsa um neytendurna gæti hann boðið upp á nýjan kost í því, t.d. með því að láta þá sem keppa um innflutninginn keppa um það verð sem hægt er að selja vöruna á. Það er ekkert nýtt í útboðum að menn noti alls konar aðferðir við að velja á milli aðilanna sem fá kvóta. Hugsanlegt væri að viðkomandi aðilar byðu þá annars vegar heildsöluverðið sem þeir ætluðu, byðu hámarksheildsöluverð sem frá þeim kæmi vegna viðkomandi vöru og hámarkssmásöluverð ef þeir væru í smásölunni líka. Hæstv. landbúnaðarráðherra mundi síðan velja þá sem ætluðu að gera best fyrir neytendurna þegar hann væri að velja þá aðila sem fengju þetta hnoss. Þetta mundi hugsanlega geta komið arðinum til neytenda og lækkað vöruverðið.

Hver fær arðinn miðað við uppboðið á tollkvótanum? Það er ríkissjóður og það stefnir í að ríkissjóður, hæstv. fjármálaráðherra, fái 400–500 millj. kr. í kassann vegna uppboðs á þeim tollkvótum sem hér um ræðir. Það er því ekki eins og ekki sé einhver arður á ferðinni miðað við það verð sem hefur komið úr síðustu uppboðum. Ef ég man rétt kom það fram að á hvert kíló á kjúklingakjöti sem var boðið upp á síðasta ári fengu menn rúmar 700 kr., sjöhundruð tuttugu og eitthvað krónur í ríkissjóð. Það hefur þá ráðið því verði á kjúklingum sem hefur verið boðið í verslunum hér innan lands. Þetta er því ekki í sjálfu sér einfalt mál og menn þurfa að muna eftir íslenskum framleiðendum þegar verið er að gera svona hluti. Þess vegna er mjög sárt að ekki skuli vera búið að taka neitt til í stuðningskerfinu við bændur á Íslandi þannig að styrkur til þeirra sé með öðrum hætti en verið hefur.

Ýmsir framleiðendur eru undir það seldir að vera skýlt af innflutningshöftum og háum tollum. Þannig er það bara. Því miður hafa menn verið að slá af hina og þessa í landbúnaðarframleiðslunni vegna þess að þeir eru ekki sterkir í baráttunni. Blómabændur fengu að finna fyrir því en aðrir eru varðir af fullri hörku eins og mjólkurframleiðendur og (Gripið fram í.) sauðfjárafurðaframleiðendur. Ég er ekkert að kvarta undan því nema að því leyti til að ég tel að stuðningskerfið við báða aðilana sé að hruni komið. Það lýsir sér best í því að algjört ósamræmi er á milli stuðnings við bændur t.d. í búvöruframleiðslu. Það er bara þannig og menn eru farnir að framleiða á fullri ferð fyrir utan kerfið, selja mjólk til Mjólku án þess að vera með kvóta í landbúnaði, sem sýnir að það kerfi er að hrynja. Í landbúnaðinum fá sumir bændur margfaldan stuðning miðað við aðra vegna þess að sumir eru að framleiða miklu meira en þeir hafa stuðning frá ríkinu til, aðrir eru að framleiða miklu minna en þeir hafa stuðning frá ríkinu til að framleiða. Kerfið er því miður löngu komið að fótum fram en menn hafa ekki borið gæfu til þess að reyna að finna leiðir til að koma upp stuðningsfyrirkomulagi sem getur staðið til framtíðar. Nú hlaupa menn til og gera sauðfjársamning án þess að taka á málinu og telja víst að þeir séu að bjarga bændum með því. Ég tel að ekki sé verið að bjarga bændum með því að framlengja kerfi af því tagi sem getur ekki staðið til framtíðar.

Hvað um það, ég tel að málið þurfi að fá framgang hér. Við munum ekki standa í vegi fyrir því en við viljum tryggja að neytendur fái arð, fái vörur á lágu verði vegna þessa innflutnings. Það verður seint gert með því að innlendir framleiðendur og aðilar sem selja á markaðnum ráði nánast því verði sem verður á vörum sem fluttar eru inn. Það gerist með uppboðunum á tollkvótanum. Ég tel því að hæstv. landbúnaðarráðherra þurfi að skoða sig vel um, hvort hann ætli að standa með neytendum þegar kemur að því að flytja þessar vörur inn eða hvort hann ætli að standa með sjálfum sér í því að lækka vöruverð í landinu. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er á þann veg að hún ætli að gera það og ég geri ráð fyrir að flestir Íslendingar telji að með samningunum sé meiningin að lækka vöruverð. Það sé ekki eitthvað annað sem hangi á spýtunni.

Þess vegna verður (Gripið fram í.) athyglisvert — ég heyrði ekki frammíkallið. (KÓ: ... fiskmarkaðinn?) Hv. þm. Kjartan Ólafsson er greinilega hrifinn af kvótakerfum og telur að hægt sé að fá góðan arð út úr því að versla sér kvóta og selja hann svo áfram í braskinu. Sumir hafa haft gott upp úr því. Ég held reyndar að það mundi ekki breyta öllu hvort kvótinn er framseljanlegur eða ekki. Ég býst við því að þeir sem eru hér í innflutningi séu býsna vel á vaktinni og viti vel hver af öðrum og viti hvað er óhætt að bjóða í kvótana, að verðið sem þeir bjóði í upphafi sé fengið með samanburði við það verð sem er á innanlandsmarkaðnum og menn ætli að hafa eitthvert svigrúm fyrir álagningu. Það sést ágætlega á því sem hefur verið að gerast í þessu, eins og ég nefndi áðan, 720 kr. eða nálægt því ofan á hvert kíló af kjúklingakjöti. Þessu þurfa menn að bæta ofan á innflutningsverðið áður en þeir fá sína álagningu. Það er þá það sem ríkissjóður fær til sín.

Enn eru engar vísbendingar um að stjórnvöld ætli að breyta háttum sínum hvað þetta varðar með úthlutunina. Ég held að það verði mjög fróðlegt að hlusta á landbúnaðarráðherra á eftir fara yfir málið og leyfa þingi og þjóð að heyra hvernig hann lítur á þessa hluti, hvort meiningin sé með innflutningnum að ganga í lið með neytendum og fá fram lágt vöruverð eða hvort menn muni halda sér við það fyrirkomulag sem hefur verið. Það er þannig að talsmaður neytenda leggst gegn því fyrirkomulagi að verið sé að bjóða upp tollkvótana. Það er þannig að Samtök verslunar og þjónustu leggjast gegn því og Alþýðusamband Íslands leggst gegn þessu. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji stjórnvöld um það hvort þau sjái ekki einhverjar aðrar leiðir. Neytendasamtökin leggjast líka gegn þessu uppboði á kvótunum. Það má því segja að nánast allir sem komu til fundar við nefndina eða sendu henni umsagnir um málið hafi verið á einu máli nema þeir sem mættu fyrir hönd bænda og framleiðanda á íslenskum vörum. Þeir töldu að fyrirkomulagið ætti að vera áfram eins og það er. Auðvitað skilur maður þá aðila. Hvern skyldi undra það þegar stuðningsfyrirkomulagið við þá er með þeim hætti sem raun ber vitni? Þeim er ógerlegt að keppa við innfluttar matvörur með því fyrirkomulagi sem nú er uppi.

Ég tel ástæðu til að velta þessum málum fyrir sér, með hvaða hætti og hvernig menn ætla að standa að því í framtíðinni að flytja inn erlendar vörur því allir eru orðnir sammála um að komið sé að því að það færist í vöxt. Menn þurfi að opna fyrir meiri innflutning á vörum og frjáls viðskipti með vörur. Þá er ég ekki að slá undan með neinum hætti hvað varðar heilbrigðiskröfur eða annað slíkt og get tekið undir allt sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði um það atriði, ef bæta þarf þær reglur þarf að taka á því í öðrum lögum en þeim sem við nú ræðum.

Ég ætla ekki að hafa ræðuna lengri. Ég tel að málið þurfi að fá framgang. Við í Samfylkingunni höfum barist fyrir því á undanförnum árum að ná fram lækkun á matarverði til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta getur orðið liður í þeirri viðleitni. Þetta getur hjálpað til við það en það mun ráðast af því hvernig með verður farið. Ég held að þess vegna sé ástæða til að hlusta á hvað þeir aðilar sem ég taldi upp áðan, og komu til fundar við nefndina og sendu umsagnir, sögðu um þá hluti.