133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:36]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Úr þessum ágæta ræðustól er talað daginn langan og hér er margt sagt gott og margt sagt satt og svo veltur auðvitað upp úr mönnum sumt sem ekki er rétt, það gerist í þessari umræðu eins og í svo mörgum öðrum. En öll erum við þannig gerð að við viljum hafa það sem sannara reynist.

Ég er auðvitað hjartanlega sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að það mál sem við ræðum hér í dag snýst eingöngu um tolla og tollkvóta. Heilbrigðismálin og gæðin og öryggið er varðað með öðrum hætti, sem ég skal fara yfir. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór hér mikinn og hann talar mikið um að kerfið sé að hrynja og standist ekki og að landbúnaðurinn hér sé í örri þróun. Það liggur fyrir að Mjólka er afurðastöð með nákvæmlega sama hætti og aðrar afurðastöðvar. Bændurnir eiga sínar afurðastöðvar og bændur eiga Mjólku. Að vísu á líka stórt fyrirtæki, Vífilfell, stærsti drykkjarvöruframleiðandi á Íslandi, fast að 50% í Mjólku, þannig að það er öðruvísi afurðastöð að því leyti að þar koma aðrir aðilar inn. En bændurnir sem leggja inn í Mjólku eru alveg eins og hinum megin, sumir fá beingreiðslur, aðrir ekki. Sumir framleiða fram yfir og fá ekki fyrir það beingreiðslu. Það er hið glæsilega bú í Eyjum í Kjós sem hefur valið sér að vera ekki í beingreiðslukerfinu en vera þó hluti af þeirri afurðastöð sem Mjólka er. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Hv. þingmaður fór líka mikið út í umræðu um grænmeti og matvælaverð. Syndir hins sáluga Alþýðuflokks liggja nú víða (Gripið fram í.) og víða. Það var auðvitað svo í EES-samningnum að þar var allt í einu óvænt samið um landbúnaðarvöru sem var grænmeti en eins og við munum reyndu þau tímabil sem voru tollalaus mjög á grænmetismarkaðinn og íslenskt grænmeti og voru þeirri atvinnugrein mjög erfið. Þess vegna var það gert, líklega árið 2002, að frumkvæði mínu að samið var um beingreiðslur til grænmetisbænda, tollarnir fóru, og þeir bjuggu við jafnræði og keppa núna nánast á heimsmarkaði með þennan stuðning á bak við sig og hafa auðvitað staðið sig gríðarlega vel. Við höfum ekki heimild til þess að taka fleiri slíkar greinar inn með þessum hætti í dag út af WTO-tollkvótum.

Þetta gerði það að verkum að verð á íslensku grænmeti lækkaði stórlega og það undarlega gerðist í verslunum að vínberin og ávextirnir lækkuðu líka í verði eins og þeir hefðu verið með tollum. Kaupmenn höfðu sem sé lagt hærri tolla eða álagningu á þetta en lækkuðu það um leið og grænmetið þannig að neytendur njóta enn í dag ríkulega af þessari gjörð núverandi ríkisstjórnar, að hafa farið þessa leið og bændurnir hafa frið um atvinnuveg sinn og standa sig gríðarlega vel á markaðnum og eru framsæknir. Þetta vildi ég taka hér fram.

Hv. þingmaður hefur rætt mikið um að hann vilji uppboðsmarkað, eða misskildi ég það? Jæja, að hann vilji einhverjar aðrar leiðir. Í sjávarútveginum hygg ég að hv. þingmaður, sem er mikill jaxl og baráttumaður, vilji uppboðsmarkað og að allur fiskur fari á markað, er það ekki rétt? Hv. þingmaður er auðvitað að tala um þetta til þess að kaup sjómanna verði sem hæst og er þá kannski ekkert að hugsa um neytendur. Nú hefur ekkert á Íslandi seinni ár hækkað jafnmikið og fiskurinn. Þegar ég var barn að alast upp í sveitinni bruddum við ýsu alla vikuna, ódýra og góða ýsu á Brúnastöðum og saltfisk og grásleppu (Gripið fram í: Og hamsatólg?) og hamsatólg. Þetta var hinn ódýri matur þeirra daga og Eysteinn Jónsson, hinn mikli stjórnmálamaður, hann fylgdist alltaf með því og taldi mikilvægt að verðið á fiskinum væri lágt á Íslandi. (Gripið fram í.) Það hefur hækkað mikið. Þetta vildi ég taka hér fram.

Það liggur alveg klárt fyrir að það samkomulag og þær leiðir sem hér er verið að lögfesta, umrætt samkomulag er hið fyrsta sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert um viðskiptagrundvelli þessarar greinar. Í samkomulaginu eru m.a. veittir gagnkvæmir tollar, tollkvótar án aðflutningsgjalda í umfangi sem ekki hefur áður þekkst í milliríkjasamningum Íslands. Í þessum samningum veitti Ísland Evrópusambandinu kvóta fyrir kjötvörur, kartöflur, rjúpur og ost, en við fáum kvóta í staðinn til útflutnings, sem eru skyr, smjör, pylsur og kjöt, þannig að þetta er gagnkvæmur samningur sem hér er og er, eins og komið hefur fram í umræðunni, væntanlega tengdur 1. mars þar sem ríkisstjórnin er líka að bakka frá gamalli gjörð Alþýðuflokksins sáluga, þegar Jón Baldvin Hannibalsson var fjármálaráðherra. Þá varð hann í kreppu ríkissjóðs þar sem allt var tekjulaust, öll félagshyggja var að hverfa, að skera allt niður (Gripið fram í.) og ríkissjóður varð að afla tekna. (Gripið fram í.) Ég studdi þá ríkisstjórn. Við vorum í mikilli neyð af því að hér var fátækt, það var kreppa, og þá skattlögðu menn matinn allt í einu og var mjög umdeilt mál hér á sínum tíma.

Nú er ríkissjóður þannig staddur, og samfélagið, að við getum gefið helminginn af þessum skatti eftir og vonandi verður matarskatturinn að fullu í burtu á næsta kjörtímabili. Það hefur alltaf verið sanngirnismál af minni hálfu. Nú förum við með hann úr 14% niður í 7%, og ríkið getur gefið þar eftir 6–7 milljarða. Af hverju? Af því að staða ríkissjóðs er með þessum hætti, það eru miklar tekjur, það eru mikil umsvif á Íslandi og við höfum auðvitað verið að gefa í á öllum sviðum þannig að við getum gefið þessa peninga eftir og erum að gefa það ásamt vörugjöldum o.fl. eftir núna 1. mars. Þetta er staðan þó að hér sé nú sultardropi á hverju nefi í þessum ræðustól af hálfu stjórnarandstöðunnar og þeir tali eins og Ísland sé alltaf á heljarþröm og hér sé allt á hverfandi hveli, þá er staðan sú að við erum í mikilli sókn og höfum bætt lífskjör okkar verulega og ríkisvaldið hefur getað gefið eftir þennan skatt, matarskattinn að hálfu, vörugjöldin og stórlækkað skatta á fyrirtæki og fólkið í landinu. (Gripið fram í: Eru þá bændur verr staddir …?) Þetta höfum við verið að gera á þessum tímum. (Gripið fram í.)

Bændur eru ágætlega statt fólk eins og aðrir Íslendingar, ágætlega statt fólk. Það eru allir hættir, hv. þm. Ellert Schram, að tala um fátækt þeirra sem betur fer. Þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra var mikil umræða um það, eilíf umræða. Bændurnir hafa líka bætt sín kjör og stórlega bætt sín kjör á síðustu 8–12 árum í tíð núverandi ríkisstjórnar og standa með öðrum hætti, þannig að þetta var ágætis frammíkall.

Ég vil svo segja af því að það hendir alltaf hv. þm. Jón Bjarnason að tala um allt milli himins og jarðar þegar menn eiga að tala um einfalda hluti, t.d. þegar menn eru að tala um þetta sem eingöngu snýst um tolla og tollkvóta þá vill hann eingöngu ræða um gæði. Gæðin eru auðvitað tryggð og ákvörðuð í lögum og hér eru mjög strangar reglur og verða áfram og koma ekkert við þetta mál, þeim verður ekkert breytt, þar búum við við mjög mikið öryggi. Landbúnaðarstofnun mælir með innflutningi, við veljum okkur lönd út af heilbrigðisástæðum því að íslenskir neytendurnir vilja búa við mikið öryggi og við þurfum líka á því að halda vegna dýraheilbrigðis o.s.frv. Það er því bara allt annað mál og er mjög vel varðað í lögum og vinnubrögðum Landbúnaðarstofnunar og landbúnaðarráðuneytisins. Ég gæti haldið hér tíu mínútna ræðu um hvað það er strangt og það minntist hv. þm. Jóhann Ársælsson á og því ber auðvitað að fylgja eftir.

Ég held að við þurfum að stíga stór skref með vaxandi innflutningi. Það liggur auðvitað fyrir sem hv. þm. Jón Bjarnason var að reyna að leiða ræðu um áðan þegar hann var að tala um að menn gætu hitt og þetta með tollkvótann. Því hefur verið svarað hér að tollkvótarnir eru auglýstir og sá sem hæst býður fær þá og hann getur ekki framselt þá. Ef hann ekki notar kvótana þá eru þeir teknir af honum innan ákveðins tíma. Um þetta gilda mjög strangar reglur og í sjálfu sér kunnum við enga aðra betri aðferð í þessu efni.

Íslendingar treysta íslenskum kjötvörum mjög vel. Svínabændur og kjúklingabændur hafa tekið mjög vel á sínum málum og eru í rauninni með allt aðra gæðavöru og standa mjög strangt að sínum málum hvað þeirra framleiðslu varðar. Þeir hafa náð að ráða niðurlögum salmonellu og kampýlóbakters. Þeir hleypa því ekki út á markaðinn. Í sumum löndum þykir það vera sjálfsagður hlutur að slíkt sé til staðar, neytendurnir vita af því að salmonella sé kannski til staðar í 30–40% af vöru. Í landbúnaðnum á Íslandi ríkja mjög strangar reglur hvað þetta varðar og mjög ströng vinnubrögð. Þeir eiga heiður skilið í þessum ágætu greinum og það á auðvitað að virða.

Þess vegna hygg ég að það sé mjög mikilvægt við breytinguna sem fram undan er og ég er þeirrar skoðunar ef innflutningur fer að aukast, að íslenskir neytendur og þess vegna erlendir ferðamenn eigi rétt á því að vita hvaða vörur þeir eru að kaupa í verslunum og hvar sem þeir borða. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hélt ágæta ræðu áðan, hann er maður íslenska fánans, ef ég man rétt, og hefur barist fyrir því að nota eigi íslenska fánann meira. Þetta eru menn farnir að gera, t.d. grænmetisbændur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fara vel yfir það og bændur eigi að beita sér fyrir því að allt kjöt sem framleitt er í landinu, hvort sem það er lambið okkar eða nautið, kjúklingurinn eða svínið, eigi að vera rækilega merkt með íslenska fánanum eða fánalitunum, með afurðastöðinni eða frá bóndanum sem framleiddi vöruna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé líka mikilvægt að þar sem við förum inn á hótel að borða, hvort sem það er Hótel Saga eða einhver annar veitingastaður þá sé það ljóst hvaða nautakjöt við erum að borða, frá hvaða landi, og hótelið eigi að gefa okkur upplýsingar um hvort boðið sé upp á íslenskt nautakjöt eða danskt og hvaðan það er komið. Þetta vildi ég sjá með þessum hætti.

Ég vil svo að lokum þakka hv. landbúnaðarnefnd fyrir skjót og góð vinnubrögð og þessa umræðu.