133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:52]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá höfum við það. Hæstv. ráðherra er uppboðsmaðurinn. Hann vill halda sig við uppboðsleiðina þótt tilmæli hafi borist frá fólki í fyrirsvari fyrir neytendur í landinu um að leita annarra leiða. Þær óskir hafa reyndar einnig borist frá þeim aðilum sem flytja inn þessar vörur og keppa um það að veita þjónustu í smásölu og heildsölu í landinu. Þá liggur það bara fyrir. Mér eru það vonbrigði.

Ég tel að full ástæða sé til þess að ríkisstjórnin reyni að sjá til að vöruverð lækki, eins og hún hefur lofað að gera. Það lækkar þá eitthvað minna en ríkissjóður fitnar heldur betur meira. Það stefnir nefnilega í að inn komi 400–500 millj. kr. í ríkissjóð fyrir uppboð á tollkvótum. Það hlýtur auðvitað að gleðja fjármálaráðherrann en það er ekki víst að það gleðji neytendur í landinu.