133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[16:03]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samfylkingin varð sér ærlega til skammar síðasta sumar með fáránlegum tillögum gagnvart íslenskum bændum og landbúnaðinum þar sem þúsundir verkamanna í afurðastöðvum um allt land og þar á meðal í Reykjavík hefðu tapað atvinnu sinni. Samfylkingin varð sér til skammar, hún klofnaði í málinu. Sumir mega eiga það sem hér eru í salnum að þeir risu upp til varnar en í rauninni hefur Samfylkingin kannski ekki borið sitt barr síðan hvað fylgi sitt hennar varðar. Látum það nú vera.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er málglaður og enginn maður er jafnmikill snillingur hér í þessum ræðustól að fara hring eftir hring. Það gerir hann létt á góðum degi. Sannleikurinn hefur ekki gert hann frjálsan, að mínu mati, ekki alltaf. Sumt sem hann sagði í minn garð og okkar í ríkisstjórnarflokkunum er ekki rétt. En hv. þingmaður er auðvitað skemmtilegur og gaman með honum að vera og hann setur svip á þingsalinn.

Ég er sannfærður um vegna spurningar hv. þingmanns að aðgerðin 1. mars — sem er þegar farin að hafa áhrif því að margar verslanir hafa verið að selja matvæli síðustu daga á 7% virðisaukaskatti og gefa það neytendum til að minna á þennan mikla dag — mun til langframa hafa mikil áhrif. Það er auðvitað deilt um hvað það verður mikið. Menn hafa efast um margt í þeim efnum. Við höfum verið að tala um það í Framsóknarflokknum að það muni örugglega skila 9–12% — við skulum taka mjólkurbændurna, þeir gáfu eftir tvö ár af verðhækkunum — kannski á langtímabili um 12–16%. En það er mjög mikilvægt sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, sem er samkeppnisráðherra hefur gert, að hann hefur falið eftirlitsaðilum og þar á meðal ASÍ (Forseti hringir.) að fylgja grannt eftir að þessi lækkun komi til neytendanna í landinu.