133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:34]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Já, hæstv. heilbrigðisráðherra sem hér stendur vill gjarnan gera þjónustusamning við SÁÁ og ég vil draga það fram af því að hér var farið með tölur frá Hagstofunni að þær eru mjög villandi. Það vantar inn í tölurnar frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi og það er líka búið að taka út, eins og eðlilegt er, Víðines sem breyttist í hjúkrunarheimili þar sem voru eldri alkóhólistar. Unglingaheimili ríkisins var líka tekið út og flutt undir barnaverndaryfirvöld þannig að tölur Hagstofunnar eru mjög villandi að þessu leyti og við munum gera athugasemdir við þær.

Varðandi framlögin til SÁÁ hafa þau aukist á fjárlögum um 13,6% á árabilinu 2006–2007. Árið 2000 voru þau 342 millj. á fjárlögum sem voru samþykkt í þessum sal en hafa farið upp í 576 millj. á yfirstandandi ári. Þetta er 68% hækkun en verðlag hefur hækkað um 34% á sama tíma þannig að þingið hefur verið að bæta verulega í.

Ég bendi líka á það að framlögin til SÁÁ voru árið 2000 í kringum 1.000 kr. frá hverju mannsbarni á Íslandi, í ágæta þjónustu. Núna í ár eru framlögin tæplega 2.000 kr. á hvert mannsbarn. Á sama tíma eru framlögin í Danmörku 540 kr. á hvern mann (VF: Hvað með samninginn?) og þar er reyndar mun meira drukkið af áfengi en hér, 11 lítrar á ári á mann. Við erum að drekka um 7 lítra á ári á mann. Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að hér séu settar lágar fjárhæðir til SÁÁ. Ég vil ná samningi við SÁÁ. Ég er með 576 millj. í höndunum frá Alþingi og ég er að reyna að ná samningi upp á þær upphæðir, virðulegur forseti. Ég er öll af vilja gerð að reyna að ná samningi við SÁÁ, á í viðræðum við þá (Forseti hringir.) og ég vona að þeir samningar náist í vor af því að starfsemi þeirra er mjög mikilvæg.