133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ – virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[10:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Í tvígang ef ekki þrígang hefur hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson komið hér í ræðustól og óskað eftir svörum frá hv. formanni Vinstri grænna um afstöðu hans eða breytta afstöðu hans til virkjunar neðst í Þjórsá. (Gripið fram í.) Viðbrögð formanns Vinstri grænna hafa verið þau að hafa komið hingað og snúið út úr og jafnvel verið með beinan skæting gagnvart hv. þingmanni eða þá ekki einu sinni svarað eins og við urðum vitni að núna.

Það er full ástæða, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) til að fylgja þessari spurningu eftir og ég beini því til hæstv. formanns Vinstri grænna hvort hann kannist við að hafa í heyranda hljóði lýst því að neðsti hluti Þjórsár væri heppilegur virkjunarkostur. Ég bið hv. þingmann um að svara því og það er ástæða til að biðja um það vegna þess að hér er um formann Vinstri grænna að ræða.

Þá er líka í þessu samhengi rétt að draga það upp hvers vegna Landsvirkjun hefur verið að ræða um möguleika á virkjun í neðsta hluta Þjórsár, (Gripið fram í.) það er vegna stækkunar á stóriðju í álverinu í Straumsvík. Það hlýtur að vera í því samhengi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur tekið þessa afstöðu, hafi hann tekið hana.

Það má líka minna á það að hv. þingmaður er sagður faðir Húsavíkurlistans sem liggur á skeljunum fyrir framan Alcoa og biður um stóriðju á Húsavík á ábyrgð Vinstri grænna, með sama hætti og Vinstri grænir fóru fram á Akranesi fyrir sveitarstjórnarkosningar og sögðu að stóriðja á Grundartanga væri eðlileg og réttlætanleg og með sama hætti og fulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur með því að fara í virkjanir á Hellisheiði til þess að veita rafmagni í álverið í Straumsvík. (Gripið fram í.) Ég spyr því, og það er eðlilegt að spyrja formann Vinstri grænna: Er þetta stóriðjustefna Vinstri grænna eða hefur Ómar Ragnarsson rétt fyrir sér að enginn flokkur hér á (Forseti hringir.) Alþingi leggist gegn stóriðju?