133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

orð þingmanns um meðferðarstofnanir.

[10:57]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það samræmist ekki þingsköpum að menn geti komið hér í ræðustól og atað auri fjarstadda menn sem ekkert hafa til saka unnið nema að reyna að lækna þrautir meðborgara sinna. Það á ekki að líðast og ég tel að það hefði verið hlutverk hæstv. forseta að ávíta hv. þingmann, Pétur H. Blöndal, sem kom hingað og leyfði sér að draga einhvers konar samasemmerki í formi ýjana, millum forstöðumanns stofnunar sem hefur orðið uppvís að meintum glæpum sem eru skelfilegri en rétt er að ræða opið hér í þessum sal annars vegar, og hins vegar hins ágæta forstöðumanns SÁÁ sem hefur af miklum krafti byggt upp þá stofnun.

Ég vil mótmæla því, frú forseti, að hv. þm. Pétri H. Blöndal líðist það að koma upp með munnsöfnuð og orðavaðal af þessu tagi. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður hefur með ósæmilegum hætti ráðist að hópum fólks sem á um sárt að binda í samfélaginu, með ósæmilegum munnsöfnuði. Það er honum til skammar, það er flokki hans til skammar en fyrst …

(Forseti (SP): Hv. þingmanni ber að ræða um fundarstjórn forseta eins og hann óskaði eftir að ræða um.)

Ég var kominn að því, frú forseti, eins og ég hef reyndar áður gert í ræðu minni, en ég var að segja að þessi málflutningur hv. þm. Péturs H. Blöndals er honum til skammar, flokki hans til skammar og er líka okkur á Alþingi til skammar. Það er skoðun mín að hæstv. forseti eigi að vanda um við þá þingmenn sem koma með svo ósæmilegum munnsöfnuði sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði. Ég krefst þess vegna sóma Alþingis að hv. þm. Pétur Blöndal komið hingað og biðjist afsökunar á þessum ummælum, (PHB: Ég er búinn að því.) ella fer ég þess á leit við hæstv. forseta að hann víti þennan þingmann og það hef ég aldrei gert áður, ég hef aldrei beðið um slíkt.

Það má kannski rifja það upp að þegar annar fyrri forseti fór til Írlands lærði hann hvernig menn meðhöndla menn af þessu tagi. Þá eru þeir reknir út úr þingsal, en ég fer nú ekki fram á það.