133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

orð þingmanns um meðferðarstofnanir.

[11:02]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér áðan vorum við að ræða um stöðu fíkniefnavandamála og starf SÁÁ og ég leyfði mér að geta um ákveðinn galla sem mér finnst vera í stjórnskipun þeirrar stofnunar og því miður varð mér á að bera það saman við Byrgið sem ekki má víst gera. Hafi ég meitt einhvern vil ég endilega biðjast afsökunar á því, enda tel ég mig hafa gert það í ræðu minni um leið og ég varð var við hvað þingmenn voru hneykslaðir. Ég vil taka á mig þá sök hafi ég gert eitthvað rangt í þessu en ég var eingöngu að bera saman það stjórnskipulag sem er hjá SÁÁ sem mér finnst ekki vera nægilega gott.

Svo vil ég benda á að ekki er búið að sanna sök á neinn hjá Byrginu þannig að menn geta í rauninni ekki sagt að það sé eitthvað saknæmt þar. Ég var eingöngu að benda á að stjórnskipulagið hjá SÁÁ mætti vera betra og það þyrfti að gera við þá samninga. Það frumvarp sem ég hef lagt fram um breytingu á fjárreiðulögum gengur einmitt út á það að ekki megi greiða út fé úr ríkissjóði nema gerður hafi verið samningur.