133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

654. mál
[11:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þó að þetta frumvarp láti lítið yfir sér á felur það eigi að síður í sér breytingar á einum átta lögum. Við ýmsar kringumstæður mætti ætla að það væri töluvert erfitt verk að samþykkja svona frumvarp með þeim rannsóknum sem þingið hlýtur auðvitað að gera á mikilvægum frumvörpum sem koma fyrir það þegar svo skammt lifir þings. Hæstv. ráðherra lætur í ljósi þá ósk að vonandi takist að afgreiða þetta frumvarp fyrir þinglok.

Ég hef lítillega kynnt mér efni þessa frumvarps og mér finnst það vera þess eðlis að hægt ætti að vera að afgreiða þetta mál áður en þingi sleppir þó að ekki séu kannski nema 6–8 eftir atvikum virkir þingdagar eftir. Eins og hæstv. ráðherra greindi frá í framsögu sinni miðar þetta frumvarp að því að gera sýslumönnum kleift að gefa út þau leyfi sem þeir gáfu áður út fyrir gildistöku laganna um breytingu á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þessi lög fækkuðu lögregluumdæmum úr 26 í 15. Hér er að vísu að mestu leyti um að ræða formbreytingar sem felast í því að sýslumenn geta gefið út leyfi sem lögreglustjórarnir gáfu áður út og mér finnst sjálfsagt að lögunum sé breytt með þeim hætti til að halda uppi þeirri þjónustu gagnvart almenningi sem a.m.k. áður var. Markmiðið með frumvarpinu er að koma í veg fyrir að þessi þjónusta við hinn almenna borgara skerðist eftir að breytingarnar á lögreglulögunum tóku gildi. Síðan rakti hæstv. dómsmálaráðherra ákveðnar breytingar á ýmsum lögum sem ekki beinlínis varða þetta og mér hafði við skimun mína á frumvarpinu yfirsést mikilvægt atriði sem hæstv. ráðherra nefndi hér. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að með samþykkt þessa frumvarps yrði einstaklingum ekki lengur heimilt að versla með skotelda. Ég skildi hann svo að þá yrði fyrst og fremst um félög að ræða og hugsanlega lögaðila. Mig langar til að hæstv. ráðherra skýri aðeins nú við 1. umr. hvað í þessu felst. Það mundi kannski greiða fyrir afgreiðslu málsins í þingnefnd.

Sú hefð hefur skapast á Íslandi að ákaflega þýðingarmikil almannasamtök sem hafa stuðlað að auknu öryggi borgaranna og vinna í sjálfboðavinnu, þau fá að vísu svolítið fé frá hinu almenna fjárveitingavaldi, hafa ein setið að því að afla sér fjár með þessu. Það hefur verið keppikefli margra góðra borgara sem vilja styðja við þessi samtök að versla við þau til að gera þeim kleift að afla sér fjár. Á undanförnum árum og sérstaklega um síðustu áramót hefur komið upp nokkur krytur millum annars vegar þeirra og hins vegar einstaklinga sem hafa viljað ráðast til uppgöngu á skipið, hafa viljað seilast til hluta af þeirri köku sem þarna er til skipta. Ég er þeirrar skoðunar að hún eigi ekkert að vera til skiptanna. Ég vil sem sagt segja að þótt ég sé almennt á bandi einstaklingsfrelsis og frelsis í viðskiptum finnst mér ekkert að því að þessi samtök hafi eins konar einkaleyfi á því að notfæra sér góðvilja almennings í sinn garð með því að sitja ein að sölu á skoteldum af þessu tagi. Er það þetta, frú forseti, sem hæstv. ráðherra er að leggja til? Ef svo er þá er ég honum algerlega sammála. Ég vildi bara hafa sagt þetta skýrt og hef beðið eftir tækifæri til að segja það að mér finnst ekkert að því að hið háa Alþingi skapi þannig umhverfi sem geri þessum frábæru samtökum kleift að afla sér fjár með þessum hætti sem og ýmsum öðrum félögum, eins og íþróttafélögum, sem hafa líka tekið þátt í því að byggja upp æsku þessa lands.

Ég vil að þessi afstaða mín liggi fyrir en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að breytingin í frumvarpinu tæki til þessa og af því að hæstv. ráðherra óskaði eftir samvinnu við þingið um að koma þessu í gegn, sem sjálfsagt er að aðstoða hann við, teldi ég gott ef hann gæti skýrt þetta mál örlítið fyrir okkur og hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér. Ef hann getur það ekki skoðum við það bara í nefnd.