133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

654. mál
[11:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þingmanns við frumvarpið og vilja hans til að greiða fyrir því að það nái fram að ganga þótt skammur tími sé eftir af þinginu. Eins og fram kom í máli mínu er meginefni frumvarpsins um það að auðvelda þjónustu við borgarana og láta ekki nýskipan lögreglumála draga úr þeirri þjónustu heldur að sýslumenn hafi heimildir til að afgreiða mál þó að þeir séu ekki lögreglustjórar.

Ákvæðið sem hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni er að finna í 14. gr. frumvarpsins og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Leyfi skv. 1. mgr. má aðeins veita skrásettu firma eða félagi, enda tilnefni firmað eða félagið mann með sérþekkingu á þeim vörum sem þar um ræðir sem hafi umsjón með daglegri verslun og ábyrgist vörslu varanna ásamt stjórnendum firmans eða félagsins. Ráðherra setur nánari reglur um efni og skilyrði slíks leyfis.“

Þetta eru hinar almennu reglur um sölu skotvopna og annarra slíkra tækja. Þarna er verið að setja þær reglur eins og síðan er skýrt í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins en þar segir:

„Lagt er til að leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda verði aðeins gefin út til skrásettra firma eða félaga, en ekki til einstaklinga. Helgast breytingin einkum af því að óeðlilegt er að einstaklingar geti stundað kaup og sölu þeirra vara sem hér um ræðir í stórum stíl án þess að hafa sérstakt félag um þau viðskipti. Með þessu fyrirkomulagi verður eftirlit með slíkri starfsemi einfaldara.“

Það stendur líka neðst í athugasemdum við 14. gr.:

„Svokölluð verslunarleyfi eru ekki lengur gefin út og er lagt til að greininni verði breytt til samræmis við það.“

Hér er fyrst og fremst verið að tryggja að unnt sé að halda uppi þessu eftirliti.

Síðan segir í 14. gr.:

„d. 4. mgr. orðast svo:

Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félagasamtökum leyfi til að selja skotelda í smásölu.“

Það er alveg tekið af skarið um það að heimilt sé samkvæmt lögunum að veita félagasamtökum leyfi til að selja skotelda í smásölu, þarna er tekið af skarið í lögunum og þetta skýrt. Það liggur í hlutarins eðli samkvæmt þessu að ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar geti selt skotelda, það þurfi að vera félög, firma eða eitthvað slíkt og að í sérstökum tilvikum sé heimilt að veita félagasamtökum leyfi til að selja skotelda í smásölu. Þarna er verið að taka af skarið um þessa þætti og ég tel að þetta sé til að skýra og setja um þetta skýrari reglur. Vona ég að þingið fallist á þetta og ræði. Í sjálfu sér er þetta ekki aðalatriðið í frumvarpinu en við töldum í ráðuneytinu, þegar verið var að fjalla um vopnalögin og þessar breytingar að færa útgáfu vopnaleyfa til lögreglustjóra úr höndum ríkislögreglustjóra, að rétt væri að skilgreina þetta með skýrari hætti þannig að það lægi alveg ljóst fyrir hvaða skilyrði menn þyrftu að uppfylla til að fá þessi leyfi.