133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:01]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að við framsóknarmenn munum gera kröfu til þess að stjórnarsáttmálinn verði efndur. Það skyldi þó ekki vera að margir vildu hlaupast undan þeim merkjum sem í honum eru, þess vegna stjórnarandstaðan sjálf og ekki standa við það sem hún hefur sagt. Við skulum bara vona að á þessu þingi, sem á enn einhverja daga eftir, og enn er langt til jóla eins og sagt er, klárum við það mál og náum samstöðu um það hvað auðlindir sjávar varðar og stjórnarskrána.

Hv. þingmaður boðar hér stíft að landbúnaðarráðuneytið verði ekki til. Ég segi: Sú þjóð sem er matvælaþjóð mun auðvitað eiga landbúnaðarráðuneyti áfram þó að það verði breytingar á Stjórnarráðinu, sem vel kann að verða. Landbúnaðarráðuneytið er hverri matvælaþjóð mjög mikilvægt þannig að það verður til þó að það sameinist kannski einhverjum öðrum ráðuneytum og verði aðalatriði þess ráðuneytis. Það geta verið samgöngumál, það geta verið byggðamál, það geta verið matvælamálin. En landbúnaðarráðuneytið mun lifa og verða til.

Hv. þingmaður fer hér víða inn í þessa umræðu. Ég vil bara segja við stjórnarandstöðuna: Hún sýndi mikinn skilning á þessu máli í fyrra og vildi breyta því þá þegar. Ég trúi því að stjórnarandstæðingar séu menn orða sinna og drengir góðir og muni vilja standa við það og styðja mig í því að færa þetta aftur þangað sem það á að vera samkvæmt lögum um Stjórnarráðið. Ég treysti því þegar ég hef unnið stjórnarliðið á mitt band í málinu eins og liggur fyrir. (Gripið fram í.)