133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:05]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef eingöngu sagt það að við framsóknarmenn höfum staðið við þau fyrirheit sem við höfum gefið kjósendum og þjóðinni. Ísland er á miklum framfaravegi eins og við þekkjum, eitt athyglisverðasta ríki á síðustu 10 árum í víðri veröld fyrir kjör almennings og hvað framfarir hafa verið miklar í landinu þannig að við höfum staðið við það. Hvað þetta varðar segi ég hér að við vonumst til þess að við náum samstöðu um þetta ákvæði, bæði með Sjálfstæðisflokknum og stjórnarandstöðunni, hvað auðlindir sjávar varðar. Á það verður vissulega látið reyna.

Hv. þingmaður fór víða í ræðu sinni og talaði m.a. um Kárahnjúka. Ég sá að hv. þingmaður misskilur margt í vatnalögunum. Það liggur t.d. fyrir samkvæmt 13. gr. og meginreglu vatnalaganna að óheimilt er að breyta vatnsfarvegi og straumstefnu nema þá með sérstakri lagagerð. Þetta er mjög skýrt í vatnalögunum.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég ræddi það í haust að landbúnaðarnefnd mundi afgreiða þessa einföldu breytingu. Um það varð ekki samstaða þá því að vissulega er eðlilegri farvegur að það komi beint inn í þingið. Ég segi hér miðað við góðan hljómgrunn á fyrra þingi af hálfu stjórnarandstöðunnar og þennan nýja og góða vilja iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnarflokkanna til að færa þetta í sinn forna farveg þar sem það á heima samkvæmt stjórnarráðslögunum að ég treysti nú á stjórnarandstöðuna, að hún verði málefnaleg og styðji mig í því verkefni að koma því heilu heim aftur. (Gripið fram í.)