133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:07]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það bara hér í þriðja sinn, það er engin þörf á þessari breytingu, þessi lög verða felld úr gildi og þess vegna þarf ekki stjórnarandstaðan í sjálfu sér að þjóna neinu af þessu tagi hjá hæstv. ráðherra. Ég held að þetta sé þannig að hæstv. ráðherra, eins og ég sagði áðan, skammast sín fyrir að svona skuli hafa farið fyrir honum og að hann skuli hafa verið of seinn. Hann er of seinn núna líka en það er auðvitað erfitt að kenna sumu fólki og kannski er hæstv. landbúnaðarráðherra einn af þeim sem gengur illa að læra stundum þegar mál eins og þessi eru til umræðu.

Ég tel að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvaða vilja stjórnarandstaðan hefur í þessu máli. Hún er á móti þessum lögum og telur að þau þurfi að endurskoða með þeim hætti að það verði fengist við lagasetninguna með jákvæðum hætti sem þýðir að ríkisvaldið, Alþingi, hefur þá málefni vatnsins í hendi sér en vísar þeim ekki frá sér með þeim hætti sem gert er í þessum lögum sem eiga að taka gildi í haust, þ.e. að vatnið verði að séreign þeirra sem eiga löndin. Það er mikilvægt atriði sem virtist vera mjög erfitt að fá menn til að skilja þegar þessi mál voru til umræðu á sínum tíma en þá getum við bara fagnað því að fá tækifæri til að útskýra það betur.