133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:09]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er furðulegt mál sem við erum að ræða hér. Það er verið að gera tillögu til breytinga á lögum um varnir gegn landbroti vegna mistaka sem voru gerð í öðru frumvarpi sem var hér til umræðu á síðasta þingi, um ný vatnalög, lagafrumvarpi sem svo mikil átök urðu um að niðurstaðan varð sú að fresta gildistöku þannig að öruggt væri að nýrri ríkisstjórn gæfist tækifæri til að koma í veg fyrir að þau tækju nokkru sinni gildi, og sú hygg ég að verði niðurstaðan.

Ég reyndar set stórt spurningarmerki við orðið sem ég notaði áðan, „mistök“. Það kom í minn hlut á síðasta þingi að benda hæstv. landbúnaðarráðherra á það ákvæði í vatnalögunum sem færir ábyrgðina á vörnum gegn landbroti frá honum, landbúnaðarráðherra, til iðnaðar- og viðskiptaráðherra og spyrja hann hvort þetta væri gert með vitund hans og vilja og í samvinnu við hann — eða hvað. Niðurstaðan varð sú að hæstv. ráðherra viðurkenndi úr þessum ræðustóli að um yfirsjón af hans hálfu hefði verið að ræða, að þetta væri hvorki gert með vitund hans og vilja né í samráði við hann. Þarna var hæstv. þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra að seilast inn í valdsvið hæstv. landbúnaðarráðherra í andstöðu við ráðherrann. Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að þarna er um að ræða tvo ráðherra úr sama stjórnarflokki, Framsóknarflokknum, sem ekki kom nú betur saman en raun bar vitni í fyrra.

Vatnalögin voru afgreidd með þeim hætti sem ég gat um áðan. Hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra gátu ekki komið sér saman um tillögu að breytingum á vatnalögum sem hefðu fært málin í sitt fyrra horf, þ.e. að ábyrgðin væri á höndum landbúnaðarráðherra. Það má því spyrja hvort ekki hefði verið eðlilegt að frumvarp til breytinga á vatnalögum kæmi fram síðar, þ.e. ef útlit væri fyrir að þau tækju gildi, því að lög um varnir gegn landbroti eru auðvitað í fullu gildi eins og þau eru og engin breyting á því fyrr en ef og þá þegar hin tækju gildi. Ég hef ekki skoðað hvenær gert er ráð fyrir því að þetta frumvarp sem við erum að ræða hér taki gildi en að sjálfsögðu er ekki ástæða til að breyta lögum um varnir gegn landbroti fyrr en þá ef hin gengju í gildi.

Það er ekki að ástæðulausu sem við ræddum hér talsvert í fyrravetur þá breytingu sem lögð var til á vatnalögunum. Það var ekki bara að það væri verið að færa valdsvið á milli ráðuneyta og skapa þannig réttaróvissu heldur var mun kæruleysislegar með málið farið í frumvarpi að vatnalögum. Það er nefnilega mjög vel tekið á málum í lögum um varnir gegn landbroti. Það er ekkert endilega einfalt mál að verja land því að ýmsir hagsmunir geta verið í húfi, t.d. þarf að gá vel að því að ekki sé verið að eyðileggja hrygningarstöðvar eða uppeldisstöðvar lax og silungs í ám og vötnum en fram hjá því var algjörlega horft í frumvarpi að vatnalögum í fyrra.

Mér sýnist, virðulegur forseti, að ef breyta ætti því ákvæði sem hér er lagt til eða breyta lögum þannig að það væri tryggt að það væri ekki verið að færa þetta frá landbúnaðarráðuneytinu ætti breytingin að fara fram á vatnalögum. Ég tek undir þær vangaveltur sem hér komu fram áðan um hvort þetta sé heimilt gagnvart stjórnsýslulögum. Þá má líka spyrja sig að því hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefði í fyrra verið heimilt að gera þær breytingar á lögum sem hún gerði tilraun til með frumvarpi til vatnalaga. Þetta er eiginlega, virðulegi forseti, ein hringavitleysa hjá þessum tveim ráðherrum Framsóknarflokksins, hæstv. fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra.

Þetta frumvarp er sem sagt ein furðuleg vitleysa að mínum dómi og óþarft vegna þess að væntanlegur þingmeirihluti á næsta þingi mun alveg örugglega koma í veg fyrir að frumvarp til vatnalaga verði að lögum og tryggja það að almenningur eigi yfirráðarétt yfir vatninu á Íslandi eins og það er tryggt í lögum í dag en að það verði ekki gert að einkaeign og verslunarvöru eins og ríkisstjórnin hefur reynt að gera með aðrar auðlindir Íslendinga, reynt að koma í veg fyrir að almenningur á Íslandi geti haft frjálsan aðgang að og afnot af vatni.

Eins og ég segi er ekki neitt sjálfsagt að þetta mál fari í gegn á þinginu og ég mun ekki styðja það.