133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:42]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú félagshyggjustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem hefur setið að völdum hér í tólf ár hefur stóraukið öll framlög til félagshyggjunnar og félagsmála í landinu. Þetta liggur fyrir í gegnum skólakerfið, heilbrigðiskerfið og gagnvart öldruðum og öryrkjum. Skattar hafa verið lækkaðir á fólk og fyrirtæki. Andstaðan er auðvitað sú, eina leiðin sem sósíalískir flokkar eins og Vinstri grænir eiga og eina takmarkið sem þeir eiga og eina leiðin sem þeir sjá er að skattleggja manninn á götunni, taka af honum peninga og rétta næsta manni. Það er þeirra leið í þeirra vegferð. Þeir sjá það einungis fyrir sér að hærri skattar sé rétta leiðin sem dregur úr kraftinum bæði hjá fólki og fyrirtækjum, að hækka skatta á fólkið og fyrirtækin til þess að rétta einhverjum öðrum sem þeim eru þóknanlegir.

Ljóst er að EES-samningurinn sem Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gerðu á síðasta áratug leiddi af sér miklar breytingar, stærstu breytingar Íslandssögunnar. Í þeim samningi varð ríkið að fara út af vettvangi Símans, bankanna. Hvaða flokkar sem hefðu verið í ríkisstjórn hefðu verið á þeirri vegferð. Við vitum líka að þeirri vegferð hefur fylgt gríðarlegur þróttur í samfélaginu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og aflmikið fólk á Íslandi á í dag meiri tækifæri en áður eftir að þessir hlutir gerðust. Það verð ég að viðurkenna þó að ég hafi ekki stutt EES-samninginn og horft frekar á tvíhliða samninga við Evrópusambandið, að þá hefur þetta leitt af sér gríðarlegan þrótt, gríðarlega peninga. Vinstri grænir segja: Bankarnir mega fara úr landi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði fyrir stuttu að bankarnir mættu fara úr landi. (Forseti hringir.) Þetta er viðhorf Vinstri grænna til samfélagsins á Íslandi.