133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta hv. þingmann, þetta lagafrumvarp snýst um breytingar á vatnalögum. Ég vil biðja hv. þingmann um að lesa frumvarpið sem er á dagskrá.

Í öðru lagi get ég upplýst hv. þingmann. Ég varð mjög hugsi, ég átti þess kost að heimsækja Ísrael og Palestínu fyrir tveimur árum og við vorum leidd um það land. Þá var okkur gerð grein fyrir því hvernig m.a. deilurnar þar snerust um eignarrétt á vatni, ekki nýtingarrétt heldur eignarréttinn. Ísraelsmenn kappkostuðu að ná undir sitt yfirráðasvæði þeim svæðum í Palestínu og Ísrael sem vatnið féll á til þess að geta stýrt vatninu til íbúanna í Palestínu. Ein af þvingunaraðgerðunum sem þeir notuðu var að stýra vatninu til þeirra. Mér er minnisstætt að við komum í hverfi þar sem íbúarnir höfðu reynt að safna rigningarvatni í tanka uppi á húsum sínum til að vera minna háðir hinum eða geta náð í eitthvað af vatni sem þeir gætu ráðstafað á eigin vegum. Þá komu Ísraelsmennirnir og sögðu: Bíðið við, þetta vatn er rigningin okkar. Þetta vatn hefði komið á okkar svæði ef það hefði fengið að falla alveg niður, þannig að þið verðið líka að borga skatt af rigningarvatninu ef þið ætlið að nota það. (Gripið fram í: Skattar.) Skatta á grundvelli eignarréttar, þeir töldu sig eiga vatnið. Ég veit að hv. þingmaður (Forseti hringir.) er mjög áhugasamur um eignarrétt á almannaeigu. (Forseti hringir.)